Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um Vinnumarkaðsstofnun

Reykjavík 6. maí 2010

 

Efni:  Frumvarp til laga um Vinnumarkaðsstofnun - 555. mál

Aðdragandinn

Í upphafi er rétt að geta þess að málið á sér nokkurn aðdraganda, sem formlega nær aftur til myndun núverandi ríkisstjórnar, en í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir m.a.: Stefnt verði að því að sameina stofnanir á sviði almannatrygginga og vinnumála í eina stofnun um vinnu og velferð.“ Ljóst er að þar er verið að vísa til Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins og Tryggingastofnunar. Af hálfu Alþýðusambands Íslands var strax varað við að farin yrði sú leið sem þar var lögð til. Af hálfu ASÍ hafa verið færð fjölmörg mikilvæg rök sem mæla gegn því að farið yrði út í svo víðtæka sameiningu annars vegar stofnana vinnumarkaðarins og hins vegar Tryggingastofnunar, sem um margt eru mjög ólíkar og hafa mismunandi verkefnum að gegna. Annars vegar eru tvær lykilstofnanir vinnumarkaðarins sem miklu skipta fyrir hagsmuni launafólk og þar sem starfsemin og árangur af henni ræðst að miklu leyti að miklu og góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, bæði varðandi stefnumótun og framkvæmd starfseminnar. Hins vegar stofnun sem hefur annað hlutverk og litla tengingu við vinnumarkaðinn, sem heldur hefur farið minnkandi í tímans rás. Sú þróun hefur m.a. orðið til þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa á undanförnum áratugum byggt upp víðtækt velferðarkerfi á vinnumarkaði, nú síðast með uppbyggingu Starfsendurhæfingarsjóðs.

Í ljósi framanritaðs lagðist Alþýðusamband Íslands strax gegn framangreindum sameiningarhugmyndum, en lýsti jafnframt því viðhorfi að rétt væri að skoða mögulega kosti þess að auka samstarf eða jafnvel sameina stofnanir vinnumarkaðarins, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið, með það að markmiði að efla og styrkja starfsemina með hagsmuni launafólks að leiðarljósi. Jafnframt lýsti ASÍ sig reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld og aðra aðila vinnumarkaðarins um frekari skoðun á þeirri hugmynd. Þessu tengdu kynntu ASÍ og SA m.a. haustið 2009 hugmyndir um virkari aðkomu aðila vinnumarkaðarins og stéttarfélaga að vinnumiðlun og þjónustu við atvinnulausra.

Við framlengingu kjarasamninga í lok október sl. lýsti ríkisstjórnin sig reiðubúna til að hefja viðræður um að breytt fyrirkomulag á þjónustu við atvinnulausa, þar sem aðilar vinnumarkaðarins axli verulega ábyrgð á framkvæmd kerfisins. Ekki varð þó af frekari viðræðum að sinni milli félagsmálaráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins um þessi efni vegna andstöðu ráðuneytisins við málið, auk þess sem kynnt var sú afstaða ráðherra að allar frekari hugmyndir um sameiningu stofnana yrðu settar til hliðar a.m.k. tímabundið.

Í ljósi framanritaðs kom það Alþýðusambandinu fullkomlega í opna skjöldu þegar félagsmálaráðherra kynnti um miðjan marsmánuð að hann hefði ákveðið að leggja til sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins og að frumvarp þess efnir yrði lagt fram á þingi þá þegar. Ekkert samráð var haft við ASÍ eða aðra aðila vinnumarkaðarins um þessa ákvörðun eða efni væntanlegs lagafrumvarps þar sem m.a. var gert ráð fyrir að aðkoma aðila vinnumarkaðarins að stofnuninni og starfsemi hennar yrði eingöngu í formi ráðgjafar. Þá var ýmislegt annað í tillögum ráðherra sem orkaði mjög tvímælis. Af þessu tilefni samþykkti miðstjórn ASÍ harðorða gagnrýni á framgöngu ráðherra og ríkisstjórnarinnar í málinu. Í bréfi forseta ASÍ til forsætisráðherra um þetta efni 24. mars sl. segir m.a.:

„Félags- og tryggingamálaráðherra kynnti í byrjun vikunnar áform ríkisstjórnarinnar um sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins í nýja Vinnumarkaðsstofnun sem gegna á lykilhlutverki varðandi framkvæmd og þróun málefna vinnumarkaðarins hér á landi í framtíðinni.

Ekkert samráð var haft við aðila vinnumarkaðarins um þessi áform eða efni málsins að öðru leyti. Með fyrirhuguðum breytingum er slitið á öll formleg tengsl og aðkomu aðila vinnumarkaðarins að þeim verkefnum sem Vinnumarkaðsstofnun mun hafa með höndum og allt vald varðandi málefni hinnar nýju stofnunar fært í hendur ráðherra og forstjóra sem starfar í umboði hans.

Samstarf og samábyrgð aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um uppbyggingu og þróun vinnumarkaðarins er eitt af helstu einkennum norrænu velferðarsamfélaganna og vinnumarkaðsmódelsins og jafnframt einn helsti styrkur þeirra. Hér á landi hefur um langt árabil verið víðtæk sátt megin atriðum um þetta fyrirkomulag. Með þeim áformum stjórnvalda sem nú hafa verið kynnt er verið að rjúfa þessa sátt um leið og vegið er að því fyrirkomulagi sem byggt hefur verið upp á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusamband Íslands mun aldrei sætta sig við slíka niðurstöðu.“

Í framhaldi af gagnrýni Alþýðusambandsins voru teknar upp viðræður milli félagsmálaráðherra og ASÍ um efni málsins. Niðurstaða þeirra viðræðna var sátt um ákveðnar breytingar á efni frumvarpsins og sameiginleg sýn er varðar frekari undirbúning málsins, bæði varðandi frekari ákvarðanir um útlínur nýrrar stofnunar og skipulag og með hvaða hætti verið tekið sérstaklega á málefnum starfsendurhæfingar og samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á því sviði.

Afstaða Alþýðusambands Íslands til fyrirliggjandi frumvarps

Af hálfu Alþýðusambands Íslands hefur sú afstaða verið mótuð að styðja fyrirliggjandi frumvarp, enda telur sambandið að samþykkt þess geti falið í sér tækifæri til að efla þá starfsemi sem Vinnumarkaðsstofnun er ætlað að sinna ef rétt er á málum haldið, til hagsbótar fyrir launafólk í landinu. Þannig felast í sameiningu Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar tækifæri til að efla þjónustu við atvinnuleitendur og fyrirtæki og rannsóknir á sviði vinnuverndar og vinnumarkaðsmála. Þá á sameiningin einnig að geta eflt þjónustu stofnunarinnar á landsbyggðinni.

Jafnframt gerir Alþýðusambandið mikilvæga fyrirvara við frekari útfærslu á skipulagi og starfsemi nýrrar Vinnumarkaðsstofnunar og hvernig verður staðið að þeim málum. Endanleg afstaða sambandsins mun þannig ákvarðast af því hvernig til tekst í þeim efnum. Hér á eftir er stuttlega gerð grein fyrir helstu fyrirvörum ASÍ, sem allir eiga sér stoð í athugasemdunum sem fylgja frumvarpinu.

Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á þétt og gott samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við frekari vinnu á grundvelli væntanlegra laga. Í því sambandi vísast sérstaklega til þess sem segir í athugasemdum með 1. gr. frumvarpsins:

„Félags- og tryggingamálaráðherra mun skipa nefnd aðila stöðugleikasáttmálans, og Öryrkjabandalags Íslands vegna málefna er varða sérstaklega skjólstæðinga þess, til að fara yfir skipulag og verkefni nýrrar Vinnumarkaðsstofnunar. Ráðgjafar ráðuneytisins munu vinna með nefndinni. Í nefndarstarfinu verði jafnframt rætt um mögulega framtíðarverkaskiptingu hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins meðal annars varðandi málefni atvinnulausra. Það er í samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármálaráðherra í tengslum við framlengingu stöðugleikasáttmálans í október 2009. Þá meti nefndin kosti og galla frekari sameiningar Vinnumarkaðsstofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins með tilliti til verkefna sem snúa að högum fólks sem er eða gæti verið á vinnumarkaði.“

Eitt af því sem sérstaklega þarf að líta til er að ný stofnun verði til að efla enn frekar vinnuverndarstarf á íslenskum vinnumarkaði, alþjóðlegt samstarf og innlendar rannsóknir á því sviði. Ljóst er að vanda verður sérstaklega til þessa þáttar við skipulagningu Vinnumarkaðsstofnunar. Þar verði haft að leiðarljósi þar sem segir í almennum athugasemdum með frumvarpinu:

„Við sameiningu stofnananna er ekki gert ráð fyrir breytingum á tilgangi eftirlits á vinnustöðum sem fram fer á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þannig er gert ráð fyrir að áfram verði tryggt að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði vinnuverndarmála, þ.m.t. samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu á þessu sviði.“

Við þetta má bæta að mikilvægt er að Alþingi staðfesti sem fyrst samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 187 um vinnuvernd. Þá er einnig mikilvægt að Ísland taki sem fyrst að fullu þátt í starfi Vinnuverndarstofnunar Evrópu.

Ljóst er að nýrri stofnun er ætlað að efla aðkomu hins opinbera að málefnum starfsendurhæfingar og trygga samræmi og samhengi m.a. varðandi mat á starfshæfni og vinnugetu. Mikilvægur þáttur þess er að samþætta starf hins opinbera því frumkvæði sem aðilar vinnumarkaðarins hafa þegar tekið í þessum efnum og því öfluga starfi sem verið er að byggja upp af hálfu Starfsendurhæfingarsjóðs. Því leggur Alþýðusambandið áherslu á það starf sem boðað er í þessu samhengi í almennum athugasemdum með frumvarpinu, þar sem segir:

„Félags- og tryggingamálaráðherra mun skipa samstarfsnefnd um starfsendurhæfingu, í samræmi við 12. lið stöðugleikasáttmálans frá í júní 2009. Í nefndinni verði fulltrúar aðila stöðugleikasáttmálans, Öryrkjabandalags Íslands, lífeyrissjóðanna, og Hlutverks eftir því sem við á. Nefndin vinni að því að samþætta starf hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins að málefnum starfsendurhæfingar, meðal annars með tilliti til samræmdra reglna um mat á starfshæfni og vinnugetu. Markmiðið er að ná sameiginlegri niðurstöðu þannig að allir landsmenn njóti sama réttar til starfsendurhæfingar og starfshæfingar þótt greiðsluskylda vegna bæði bóta og þjónustu sé hjá mismunandi aðilum.“

Að lokum skal áréttað að hvernig til tekst við þær breytingar sem frumvarpið boðar ræðst að stærstum hluta af því hvernig til tekst við að útfæra samstarf og verkaskiptingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við uppbyggingu og stefnumörkun fyrir hina nýju stofnun og starfsemi hennar. Lykilatriðið er að full sátt verði við verkalýðshreyfinguna í þeim efnum.

Áskilinn er réttur til þess að koma að frekari athugasemdum við málið þetta eftir því sem meðferð þess á Alþingi miðar.

 

Virðingarfyllst,

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ