Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um útlendinga

Reykjavík, 9. maí 2016.
Tilvísun: 201604-0029

Efni: Frumvarp til laga um útlendinga, 728. mál

Í athugasemdum segir m.a. um þau markmið sem frumvarpinu er ætlað að ná fram: „Ný löggjöf þarf að taka mið af og samræmast þörfum íslensks samfélags með tilliti til hagvaxtar, aukinnar kröfu um samkeppnishæfni landsins og leggja aukna áherslu á mannúð og réttindavernd þeirra sem hingað koma.“ Hér eru sett fram háleit og mikilvæg markmið.
Á þeim stutta tíma sem gefist hefur til að fjallað um frumvarpið frá því það var sent til umsagnar eru engar forsendur til að meta hvort efni þess mæta framangreindum markmiðum. Þá er ljóst að ýmsum spurningum er ósvarað varðandi skipulag og stuðning af hálfu ríkis, sveitarfélaga og annarra sem málið varðar til að mæta þeim kröfum sem frumvarpið gerir til aðstoðar og þjónustu við útlendinga sem hingað koma og hér dvelja á grundvelli nýrra laga, einkum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá verður ekki séð að farið hafi fram heildstætt mat á því hvaða mögulegu áhrif það getur/mun hafa á framkvæmdina m.a. út frá vinnumarkaðssjónarmiðum og mögulegar afleiðingar fyrir vinnumarkaðinn og samfélagið allt verði frumvarpið að lögum. Slíkt mat snýr að mögulegum áhrifum á vinnumarkaðinn. Slíkt mat varðar jafnframt sveitarfélögin, kostnað þeirra og getu til að veita þá þjónustu og úrræði sem felast í frumvarpinu. Það sama gildir um ríkið og stofnanir þess. Æskilegt hefði verið að slíkt mat lægi fyrir.

Almenn afstaða Alþýðusambandi Íslands
Samhliða nýjum lögum um útlendinga eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga til samræmis. Alþýðusambandið hefur litið þannig á að lögin um atvinnuréttindi útlendinga séu fyrst og fremst vinnumarkaðsmál og að veiting atvinnuleyfa eigi almennt að vera á þeim grundvelli. Þetta sé meginregla þótt aðrir þættir komi til s.s. er varðar umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Þá hefur Alþýðusambandið bent á að íslenskur vinnumarkaðurinn sé vel skipulagður og í öllum meginatriðum sátt um það fyrirkomulag sem hér ríkir og að því er fast fylgt eftir af stéttarfélögunum að réttindi allra sem hér starfa séu virt. Áhersla hefur jafnframt verið lögð á að mikilvægt sé að vera útlendinga á íslenskum vinnumarkaði raski ekki því fyrirkomulagi sem fyrir er eða leiði til undirboða á vinnumarkaði og svartrar atvinnustarfsemi:

o Það eru hagsmunir þeirra sem fyrir eru á vinnumarkaði.
o Það eru hagsmunir þeirra útlendinga sem hingað koma til starfa.

Hvoru tveggja eru félagsmenn stéttarfélaganna sem við gætum hagsmuna fyrir.
Allir sem hingað koma til dvalar og starfa eiga að njóta fullra réttinda og vera fullgildir á vinnumarkaði. Þessu hefur okkur tekist að ná í öllum aðalatriðum, í þenslunni/bólunni á síðasta áratug – og samdrættinum sem á eftir fylgdi. Það hefur hins vegar kostað mikla vinnu.
Tryggja verður að þeir útlendingar sem hér starfa njóti allra réttinda sem þeim ber, séu vel upplýstir um stöðu sína og réttindi og geti leitað réttar síns með einföldum og skilvirkum hætti. Það á að vera sameiginlegt úrlausnarefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins (þar sem stéttarfélögin eru helsti samskiptaaðilinn).
Í því samhengi er mikilvægt að benda á þann ört vaxandi vanda sem við stöndum frammi fyrir á vinnumarkaði vegna alltof margra fyrirtækja, erlendra og íslenskra, sem stunda undirboð á vinnumarkaði og ólöglega atvinnustarfsemi. Vandinn er stærstu þar sem vöxturinn er mestur, í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og ferðaþjónustunni. Og brotastarfsemin beinist að þeim sem „eru veikastir fyrir“. Þekkja minnst þau kjör og réttindi sem hér gilda og hafa síst þrek og áræði til að sækja sinn rétt. Við erum að tala um útlendingana sem hingað koma til starfa og eru sóttir til fátækustu ríka Evrópu og 3ja heimsins þar sem kjör og öll réttindi eru allt önnur og lakari en hér þekkist. Við sjáum jafnframt að aðferðirnar sem er beitt eru „þróaðri“ og brotastarfsemin ósvífnari en áður.
Verst eru brotin gagnvart erlenda verkafólkinu sem borgað eru laun langt undir því sem kjarasamningar segja til um. Þar sem starfsreynsla og starfsréttindi eru einskis virt. Yfirvinnu- eða vaktavinnulaun ekki greidd. Þar sem öryggi og aðbúnaður á vinnustað er með öllu óásættanlegt. Og þeim er gert að gista á verkstæðisloftum og iðnaðarhúsnæði. Eða í hálfgerðum gettóum þar sem þeim er troðið, mörgum saman, í litlar herbergiskytrur og látnir borga fyrir okurleigu. Og atvinnurekendurnir gera allt til að koma í veg fyrir að þetta erlenda verkafólk fái upplýsingar um rétt sinn og halda því markvisst frá stéttarfélögunum. Reyni það engu að síður að sækja sinn rétt er því hótað atvinnumissi og að það verði sent úr landi. Í atvinnuleysið og örbyrðina heima fyrir. Þannig er spilað á varnarleysi, hræðslu og ótta. Verstu tilfellin eru mansal, þar sem erlenda launafólkið er hneppt í hreinan þrældóm og haldið föngnu, eins og nýleg dæm sanna.
Við fáum nú innsýn í skuggahliðar hnattvæðingar, skipulagðrar brotastarfsemi og óbilgirni erlendra og íslenskra fyrirtækja, sem ekki víla fyrir sér að misnota og brjóta á erlendu verkafólk til að skapa sér samkeppnisforskot á markaði og auka gróða sinn. Nýjasta dæmið er síðan svokölluð „sjálfboðaliðastarfsemi“ og „starfsþjálfun“. Þar sem ungt fólk erlendis frá er látið vinna launalaust við framleiðslu- og þjónustustörf einkum í ferðaþjónustu, í samkeppni við fyrirtæki sem virða kjarasamninga og lög og greiða sínu starfsfólki laun. Það er sammerkt með allri þessari brotastarfsemi að reynt er með öllum tiltækum ráðum að komast undan því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins. Á þessari brotastarfsemi tapa allir nema svindlararnir.

Í fyrsta lagi tapar útlenda launafólkið og ungmennin sem brotið er á.
Í öðru lagi tapar allt íslenskt launafólk, því með undirboðum á vinnumarkaði er grafið undan kjörum og réttindum sem hér gilda. Árangri af áratuga starfi og baráttu verkalýðshreyfingarinnar og íslensks launafólks er stefnt í hættu.
Í þriðja lagi tapa öll heiðarleg fyrirtæki sem jafnframt eru kjölfestan í íslensku atvinnulífi og koma fram af virðingu við sitt starfsfólk og greiða sín gjöld til samfélagsins. Með undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi er grafið undan samkeppnisstöðu þeirra.
Í fjórða lagi tapar samfélagið allt. Fyrirtæki sem stunda félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi eru jafnframt að koma sér undan því að greiða skatta og leggja sitt til samfélagsins. Þau grafa undan heilbrigðis-, velferðar-, menntakerfinu, því velferðarsamfélagi sem við viljum hafa.

Í umræðu og lagasetningu um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði er mikilvægt að hafa framangreindar staðreyndir í huga. Þá varðar ekki síst þá löggjöf sem hér er til umfjöllunar, þótt fleira komi til, enda beinast brotin ekki síður að EES borgurum sem hingað koma til starfa. Alþýðusambandið hefur lagt ríka áherslu á að gegn framangreindri brotastarfsemi verði allir sem málið varðar að leggja sitt af mörkum: Aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld, löggjafarvaldið, fjölmiðlar og allur almenningur. Í framangreindu ljósi verður að skoða þær ábendingar og athugasemdir sem hér fylgja á eftir.

Ábendingar og athugasemdir
Á þeim skamma tíma sem fékkst til að lesa yfir efni frumvarpsins og athugasemdir með því (alls 190 bls.) hefur ekki gefist tækifæri til að fara í saumana á öllum ákvæðum þess, auk þess sem heildstætt mat á mögulegum áhrifum frumvarpsins liggur ekki fyrir eins og áður hefur verið vikið að.
Þá er rétt að geta þess að mörg atriði í frumvarpinu eru sannanlega til bóta s.s. hvað varðar kærunefndina sbr. 6. gr. og móttökumiðstöð sbr. 27. gr. Einnig má segja að breytingar sem lagðar eru til að lögunum um atvinnuréttindi útlendinga séu margar til bóta og gera lögin skýrari þannig að auðveldara er að vinna eftir þeim fyrir alla aðila sem að þessum málum koma. Þá fær Vinnumálastofnun auknar heimildir til að kalla eftir upplýsingum frá atvinnurekendum til að sannreyna forsendur atvinnuleyfa og er það vel.
Hér á eftir verður fjallað um nokkra þætti er varða sérstaklega vinnumarkaðinn. Umfjöllunina ber að skoða m.a. í ljósi þess sem segir hér að framan um vaxandi brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði, þar sem útlendingar eiga í hlut. Hvernig sú brotastarfsemi grefur undan þeim vinnumarkaði og þeim réttindum sem áunnist hafa með áratuga baráttu og almenn samstaða er um í dag.

65. gr. Dvalarleyfi vegna náms 
Mikilvægt er að tekin verði af öll tvímæli um að þegar um er að ræða „starfsnám á vinnustað“ eða „starfsþjálfun á vinnustað“ sem hluta af námi þá sé um raunverulegt nám eða starfsþjálfun að ræða, en ekki ólaunaða eða lítt launaða vinnu, sem að öðrum kosti væri unnin að starfsmanni sem njóta á launa og annarra starfskjara í samræmi við íslenska kjarasamninga eða lög. Þannig er eðlilegt að gerðar séu kröfur um að námið/starfsþjálfunin sé á grundvelli ítarlegs samnings sem kveður m.a. á um í hverju námið/starfsþjálfunin skuli fólgin. Námið/starfsþjálfunin sé í umsjá og undir leiðsögn til þess bærs fagaðila og að neminn komi ekki í stað launaðs starfsmanns. Að öðrum kosti á reglan um atvinnuleyfi skv. lögum um atvinnuréttindi útlendinga við og þau skilyrði sem henni fylgja.
Í þessu sambandi skal einnig vísað til 122. gr. frumvarpsins um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, þar sem lögð er til breyting 1. mgr. 23. gr. laganna í þá veru að undanþágan nái líka til „doktors- og starfsnemar“, án þess að hugtakið starfsnemi sé skilgreint með fullnægjandi hætti.
Koma mætti framangreindum skilyrðum fyrir í reglugerð vegna 65. gr. en ekki er gert ráð fyrir slíku í frumvarpinu.

67. gr. Dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða og trúboða
Fagna ber þessari grein frumvarpsins, enda virðist hún ramma ágætlega inn þær takmarkanir sem eðlilegt er að að gera hvað varðar starfsemi sjálfboðaliða. Greinin og efni hennar eru í ágætu samræmi við þær áherslur sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa í þessum efnum.

68. gr. Dvalarleyfi vegna vistráðningar
Dvalarleyfi vegna vistráðninga hafa lengi verið umdeild í ljósi ítrekaðra dæma sem komið hafa upp um að framkvæmdin hefur verið með öllu óásættanleg og viðkomandi einstaklingar í reynd notaðir sem ódýrt vinnuafl, þar sem reglur um greiðslur og vinnutíma eru að engu hafðar.
Mikilvægt er að lögunum fylgi strax frá upphafi skýrar reglur varðandi þá þætti sem tilteknir eru í síðustu mgr. 68. gr. og þeim fylgt eftir af festu.

122. gr. Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga
Fjórði töluliður. Breytingar á 8. gr. laganna. Í stað orðanna „eins árs“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: tveggja ára.
Gerð er tillaga um það að atvinnuleyfi sem veitt sé í fyrsta skipti skuli nú veitt til tveggja ára strax í upphafi í stað eins árs og síðan til tveggja ára komi til framhaldsumsóknar eins og verið hefur.
Sérstök ástæða er til að varhug við þessari breytingu.
Eins og lögin og framkvæmdin er núna er leitað til stéttarfélaganna þegar atvinnuleyfi er endurnýjað til að fá endurnýjaða umsögn viðkomandi félags á atvinnuleyfinu og þá sannreynt hvort viðkomandi hafi greitt til stéttarfélags eins og ráðningarsamningurinn segir til um, og notið þannig verndar kjarasamnings og laga. Þá er einnig yfirfarið hvort viðkomandi sé enn á réttum launum og hafi fengið samningsbundnar hækkanir á tímabilinu. Með því að lengja þennan tíma í tvö ár eykst hættan á að viðkomandi sé hlunnfarinn um laun og önnur starfskjör án þess að brugðist sé við í tíma. Þannig eykst hættan á undirboðum á vinnumarkaði og annarri brotastarfsemi gagnvart útlendingum sem hér starfa. Þá verður ekki séð að það séu einhver málefnaleg rök fyrir að lengja tímann sem atvinnuleyfið er veitt í fyrsta skipti. Það sem vísað er til í athugasemdum um „þarfir atvinnulífsins“ á ekki við, þar sem framlenging er veitt, nema fram komi alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina og þá hvað varðar brot gagnvart viðkomandi starfsmanni.
Sextándi töluliður. Breyting verði á 1. mgr. 23. gr. laganna: Í stað orðanna „fjórar vikur“ í 1. málsl. kemur: 90 daga.
Bent skal á að undanþágan nær m.a. til:
e. Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki, enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
g. Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja.

Í ljósi vaxandi áhyggna af brotastarfsemi í ferðaþjónustu og þess að skilgreiningin á því hverjir falla undir g. lið er óljós og að komið hafa upp álita- og ágreiningsmál hvað það varðar leggst ASÍ geng því að undanþágan verði lengdi a.m.k. í tilfellum e. og g.
Sextándi töluliður. Breyting verði á 1. mgr. 23. gr. laganna: A-liður orðast svo: Vísinda- og fræðimenn, þ.m.t. doktors- og starfsnemar, í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf hér á landi eða sambærilega starfsemi, og skal þá viðkomandi útlendingur hafa lokið háskólanámi í tengslum við það starf sem um ræðir.
Hér vísast til umsagnar um 65. gr. frumvarpsins. Þegar hafa komið upp mál þar sem „starfsnemar“ hafa verið notaðir til undirboða á vinnumarkaði. Það er því varhugavert að útvíkka heimildina með þeim hætti sem lagt er til og leggur ASÍ til að breytingartillagan verði feld niður.

Að lokum

Alþýðusambandið leggur til að við afgreiðslu frumvarpsins verði tekið tillit til framangreindra ábendinga og athugasemda.

Virðingarfyllst,
f.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ