Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála

Reykjavík, 31. október 2014
Tilvísun: 201410-0037

Efni: Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, 207. mál
Í athugasemdum með frumvarpinu segir að „Tilgangur breytinganna er að auka hagkvæmni og bæta vinnubrögð með því að sameina sjö úrskurðar- og kærunefndir í eina nefnd.“ Þá segir: „Hér er gert ráð fyrir að ein níu manna nefnd, þar af þrír nefndarmenn í fullu starfi, komi í stað sjö nefnda þar sem nefndarmenn sinna að jafnaði starfinu sem aukastarfi. Þá er gert ráð fyrir að nefndin hafi fasta starfsmenn í stað þess að starfsmenn ráðuneytisins starfi fyrir nefndirnar, oft samhliða öðrum störfum. Þannig ætti að vera betur tryggt að nefndarmenn og starfsmenn geti annað þessum störfum og öðlist meiri þekkingu og reynslu í störfum sínum. Þá ættu samræmdar málsmeðferðarreglur og möguleikar til að jafna álag á nefndarmenn og starfsmenn vegna breytilegs fjölda kærumála á mismunandi sviðum að fela í sér tækifæri til aukinnar hagræðingar. Það ætti einnig að tryggja betur samræmda og vandaða málsmeðferð. Loks verður sjálfstæði úrskurðarnefndarinnar betur tryggt þar sem starfsmenn ráðuneytisins koma ekki lengur að undirbúningi úrskurða.“

Alþýðusamband Íslands tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum með frumvarpinu og að aukið verði á skilvirkni í þessum efnum. Jafnframt leggur ASÍ áherslu á að við skipun í nefndina verði lögð áhersla á að finna aðila sem hafi nauðsynlega sérþekkingu á þeim sviðum sem úrskurðarnefndinni er ætlað að fjalla um. Sama gildir um starfsfólk úrskurðarnefndarinnar. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á heimild skv. 3. mgr. 3. gr., þar sem segir: „Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við meðferð einstakra mála. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.“

Alþýðusambandið leggur áherslu á að sköpuð verði þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að ná framangreindum markmiðum og að í nefndina veljist m.a. einstaklingar með mikla og góða þekkingu á svið vinnuréttar. Þá tekur ASÍ undir að rétt er að bíða að svo komnu máli með að fella Úrskurðarnefnd jafnréttismála undir nefndina, enda eru þar breytingar í bígerð sem mikilvægt er að huga frekar að áður en frekari ákvarðanir verða teknar um framtíð hennar.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandi til að frumvarpið verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
f.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ