Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um uppbót á eftirlaun

Reykjavík, 30. apríl 2008
Tilvísun: 200804-0052

Efni: Umsögn um 547. mál, uppbót á eftirlaun.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 var því lýst yfir að
ríkisstjórnin stefni að því að tryggja ellilífeyrisþegum að lágmarki 25 þúsund
krónur á mánuði frá lífeyrissjóði frá 1. júlí 2008 og er þessu frumvarpi ætlað
að hrinda þessu í framkvæmd.
Alþýðusamband Íslands hefur haft þetta frumvarp uppbót á eftirlaun, mál
nr. 547, til sérstakrar skoðunar og gerir alvarlegar athugasemdir við bæði
efni þess og form.
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að réttur til þessarar greiðslu vakni við 67
ára aldur einstaklinga sem hafið hafi töku eftirlauna úr lífeyrissjóði. Vakin er
athygli á því að í almenna lífeyrissjóðakerfinu er eftirlaunaaldurinn miðaður
við 67 ár en 65 ár í opinbera kerfinu. Í báðum þessum kerfum er heimild til
þess að flýta töku lífeyris um nokkur ár og er ekki gert ráð fyrir því að þessi
réttur fylgi þeim sveigjanleika. Furðulegast er þó ákvæði um að ef
viðkomandi einstaklingur á engan rétt í lífeyrissjóði öðlast hann þennan rétt
fyrst við 70 ára aldur, en yfirlýst markmið þessa frumvarps er að ná til þess
hóps. Engin rök eru færð fyrir því hvers vegna þessir einstaklingar – að
mestu leyti konur sem voru heimavinnandi eða öryrkjar sem ekki gátu verið
á vinnumarkaði örorku sinnar vegna, fá ekki uppbótina fyrr en við 70 ár
aldur.
Í öðru lagi er um að ræða óverðtryggða fjárhæð sem nemur 300 þúsund
krónum á ári, sem greidd er í 12 greiðslum. Uppbótin skerðist þó miðað við
tekjur viðkomandi einstaklings á næstliðnu tekjuári. Þannig munu allar
skattskyldar tekjur, að fjármagnstekjum undanskyldum, skerða uppbótina
að fullu og fjármagnstekjur munu skerða hana að hálfu. Vakin er athygli
Alþingis á því að þessi útfærsla sem hér er kynnt á ekkert skylt við
réttindi fólks í lífeyrissjóði, þrátt fyrir að fram hafi komið í
stefnuyfirlýsingunni að tryggja ætti öllum landsmönnum lágmarksréttindi í
lífeyrissjóði.
Í þriðja lagi mun þessi uppbót á eftirlaun, þrátt fyrir þennan óskyldleika við
lífeyrisgreiðslur, skerða rétt viðkomandi einstaklings til tekjutryggingar og
heimilisuppbótar með sama hætti og lífeyrisgreiðslur. Þetta þýðir í reynd að
einstaklingur sem býr einn fær engar 25 þúsund krónur á mánuði, heldur
bara 12.588 krónur. Í fjórða lagi mun þessi tekjutenging bótanna fela í sér 100% jaðarskatta
gagnvart bæði atvinnutekjum og greiðslum úr lífeyrissjóðum. Útfærslan er
svo óréttlát, að leitun er að öðru eins. Sem dæmi um þetta má benda á, að
réttindi launafólks í lífeyrissjóðum eru verðtryggð m.v. breytingar á
neysluvísitölu í hverjum mánuði en þessi uppbót er óverðtryggð. Þetta þýðir
með öðrum orðum að hækkun lífeyris frá lífeyrissjóðum vegna
verðtryggingar mun skerða þessa uppbót um sömu fjárhæð. Þar með er
ríkissjóður í reynd að afnema verðtryggingu lífeyris hjá þeim allra
tekjulægstu! Það sama mun gerast ef lífeyrissjóðir ákveða að hækka lífeyri
vegna góðrar ávöxtunar, slík hækkun mun ekki skila sér til þeirra
tekjulægstu vegna þessarar tekjutengingar.
Það er í reynd furðulegt og í rauninni algerlega ómögulegt að átta sig á því
hvaða skoðun eða stefnu ríkisstjórnin hefur gagnvart jaðaráhrifum milli
ríkissjóðs og almannatrygginga annars vegar og lífeyrissjóðakerfisins hins
vegar. Fyrir nokkrum vikum var afgreiddur á Alþingi svokallaður bandormur
um breytingar á réttindum elli- og örorkulífeyrisþega, þar sem talsverðum
fjárhæðum var varið til þess að draga úr jaðaráhrifum í
almannatryggingakerfinu með lækkun á hlutfalli tekjutengingar og verulegri
hækkun á frítekjumörkum gagnvart atvinnutekjum en ekki greiðslum úr
lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir að sú aðgerð hafi í sjálfu sér verið jákvæð vakti
athygli að ekki var tekið upp frítekjumark gagnvart greiðslum eftirlauna úr
lífeyrissjóðum. Með þessu frumvarpi er í raun gengið enn lengra, því hér
kynnir ríkisstjórnin til 100% jaðarskatt – en lengra verður ekki gengið í
þessu efni! Hér er í rauninni verið að ganga lengra en áður hefur sést í að
ónýta réttindaávinnslu almennings í lífeyriskerfinu sem grefur undan kerfinu.
Þegar almenningur, sem átti von á því að fá 25 þúsund króna hækkun á
lífeyri sínum, fer að sækja þennan nýja rétt sinn kemur í ljóst að vegna þess
að það hafði sparað hluta launa sinna til efri áranna og nurlað saman 20
þúsund króna greiðslu á mánuði, fær það ekki nema 5 þúsund krónur.
Minnt er á að þegar ASÍ lagði til að tekin yrði upp sérstakur 20 þúsund króna
persónuafsláttur sem myndi fjara út við 300 þúsund króna tekjur á mánuði
var því alfarið hafnað á þeirri forsendu að það þýddi 50% jaðarskatt.
Ekki verður annað séð, að ástæða þessara miklu og flóknu tekjutenginga sé
til þess að tryggja það að sem allra fæstir landsmenn njóti þessara réttinda.
Samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins kostar þessi aðgerð ríkissjóð 600
milljónir króna á ári. Þetta er athyglisvert. Rétt er að minna þingmenn á, að
í deilu ASÍ, Landssambands eldri borgara og Öryrkjabandalagsins við
ríkisstjórnina um hækkun grunnfjárhæða almannatrygginga í kjölfar
kjarasamninga hefur gjarnan verið vitnað til þessarar uppbótar. Röng
útfærsla ríkisstjórnarinnar á hækkun bóta almannatrygginga ,,sparaði‘‘
ríkissjóði 3.600 milljónir króna á meðan kostnaður af þessari aðgerð er 600
milljónir króna. Á meðfylgjandi mynd má sjá samanburð á raunáhrifum
þessarar uppbótar samanborið við réttláta framkvæmd kjarasamninganna
frá því 17. febrúar.
Eins og sjá má fær einstaklingur sem á engan rétt í lífeyrissjóði samtals
1.927 krónur á mánuði í hærri ráðstöfunartekjur með uppbótinni. Ef réttur
viðkomandi í lífeyrissjóði nær 6.000 krónum á mánuði er þessi ,,ábati‘‘
horfinn og þeir einstaklingar sem eiga 25.000 krónur í lífeyrissjóði hefðu
fengið ríflega 6.000 krónum meira með réttlátri útfærslu kjarasamninga.
Þessi samanburður skýrir e.t.v. betur en nokkuð annað útfærslu ríkisstjórnarinnar, henni er ætlað að tryggja eins og áður sagði að sem allra
fæstir njóti greiðslunnar.


Alþýðusamband Íslands lýsir sig algerlega andsnúið þessu frumvarpi og
varar sterklega við neikvæðum áhrifum þess á lífeyriskerfi landsmanna og
lítur á það sem forgangsverkefni við endurskoðun laga um
almannatryggingar og tengslum þeirra við lífeyrissjóðakerfið að breyta þessu
til betri vegar.