Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um um fasteignalán til neytenda

Reykjavík 6.1 2016
Tilvísun: 201512-0004


Efni: Frumvarp til laga um um fasteignalán til neytenda, mál nr. 383

ASÍ styður markmið frumvarpsins eins og þau eru sett fram í 1.gr. þess þ.e. að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda. ASÍ vill hins vegar vekja athygli á því, að frumvarpið leiðir ekki til þess að hagnaður lánveitenda af endursölu og annarri fénýtingu þeirra traustu og vel tryggðu verðbréfa sem til verða í viðskiptum lánveitenda og neytenda, skili sér í formi lægri vaxta til lántakenda. Sá vaxtamunur sem verður til í þeim viðskiptum, rennur alfarið til viðkomandi lánveitanda. Þessu er með öðrum hætti skipað m.a. í Danmörku þar sem lánveitendum er gert skylt að skilja að fasteignalánastarfsemi sína og aðra og áhættusæknari lánastarfsemi. Þeim er gert skylt að halda jafnvægi milli útlána sinna í þessu efni og þeirrar fjáröflunar sem þeir eru í til þess að standa undir henni. Lánveitenda er tryggður eðlilegur hagnaður af starfseminni en hagnaðurinn (vaxtamunurinn), leiðir að öðru leyti til lægri vaxta hjá lántakendum. Þetta er gert í gegnum sérstakar húsnæðisveðlánastofnanir.

ASÍ hefur talað fyrir þessu fyrirkomulagi um nokkurra ára skeið og gaf út sérstaka skýrslu um þetta efni, Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd, og kynnti á 40. þingi sambandsins í október 2012. Skýrslan fylgir umsögn þessari. Þar er einnig að finna Frumvarp til laga um húsnæðisveðlán og húsnæðisskuldabréf ásamt greinargerð og byggir það á danskri fyrirmynd.

ASÍ hvetur eindregið til þess að sami háttur verði tekinn upp í þessu efni hér á landi, eins og í Danmörku og Alþingi tryggi gildistöku slíkrar löggjafar samhliða þeirri sem nú er veitt umsögn um.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ


Fskj: Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd, október 2012.