Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir

Reykjavík, 10. maí 2017
Tilvísun: 201705-0007


Efni: Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 438. mál

Alþýðusambandið styður meginefni frumvarpsins og þau markmið sem þar eru sett fram. Um leið telur ASÍ mikilvægt að árétta eftirfarandi:

I. Notendastýrð persónuleg aðstoð
Alþýðusamband Íslands hefur ítrekað komið á framfæri því sjónarmiði sínu um mikilvægi þess að samtök launafólks hefðu aðkomu að undirbúningi lagasetningar um málefni fatlaðs fólks hvað varðar lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk og innleiðingu hennar. Þetta sjónarmið hefur verið sett fram í samtölum við starfsmenn velferðarráðuneytisins sem unnið hafa að þessum málum og í umsögn ASÍ við frumvarp til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks (aukin vinnuvernd og notendastýrð persónuleg þjónusta), 454. mál, í febrúar 2015. Ástæðan fyrir þessari afstöðu Alþýðusambandsins er m.a. sú að málið varðar kjör þeirra sem starfa við þessa þjónustu, aðbúnaðarmál þeirra og ýmsa þætti aðra. Í því sambandi hefur Alþýðusambandið m.a. bent á eftirfarandi:
Það er grundvallaratriði að fjármögnun verkefnisins sé með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði um laun og önnur starfskjör skv. kjarasamningum. Af hálfu ASÍ hafa verið settar fram efasemdir um að fjárframlög til verkefnisins á undangengnum árum stæðu undir eðlilegum starfsmannakostnaði. Mikilvægt er að úr því verið skorið með ótvíræðum hætti og þá bætt úr ef niðurstaðan gefur tilefni til.
Síðan eru fjölmargir þættir sem lúta sérstaklega að ráðningarsambandi, réttindum og skyldum starfsmanna. Hér skal aðeins drepið á örfáum atriðum sem þarfnast skoðunar og úrlausnar:

1. Ráðningarsambandið
Mikilvægt að ráðningarsambandið sé á milli starfsmanns og tiltekins lögaðila sem hefur viðurkenningu ráðuneytisins og að ráðningin byggi á viðurkenndum kjarasamningi.
2. Vinnuverndar- og aðbúnaðarmál
Auk þeirra atriða sem lúta sérstaklega að vinnutímamálum og hvíldartíma er ýmsir aðrir þættir á sviði vinnuverndar og aðbúnaðarmála starfsmanna sem taka þarf á og móta reglur um, s.s. vinnuaðstæður og aðbúnaður almennt (húsnæði og hjálpartæki/léttitæki) og skilgreining á „umönnunarþunga“.
3. Siðferðileg álitamál
Móta þarf skýrar reglur um það hvað starfsmanni ber að gera og hvað er utan hans starfssviðs og honum ber ekki að gera/getur hafnað. Þegar hafa komið upp ýmis álitaefni í þessu samhengi sem mikilvægt er að taka á með afdráttarlausum hætti.
4. Fræðslumál – námskeið
Nauðsynlegt er að útbúa vandað kynningar- og fræðsluefni um NPA fyrir:
- Fyrir starfsmennina
- Þá sem njóta þjónustunnar
- Fulltrúa sveitarfélagana
Leggja ber áherslu á að starfsmaðurinn og sá sem nýtur þjónustunnar fái sömu upplýsingar og sömu skilaboð. Töluverð vinna hefur farið fram í kjölfar kjarasamninga NPA-miðstöðvarinnar og Flóabandalagsins/SGS um fræðsluleiðir. Í þeirri vinnu hefur komið í ljós að á Norðurlöndunum þar sem þjónustan hefur gefist best er lögð mikil áhersla á fræðslumál.
Hvað varðar framangreinda þætti og fleira sem varða sérstaklega hagsmuni starfsmanna, réttindi og skyldur hefur Alþýðusambandið lagt ríka áherslu á að skoðuð framkvæmd NPA á hinum Norðurlöndunum, þar sem fyrir hendi er reynsla af slíku fyrirkomulagi, og hvað megi læra af því.

II. Breytingar á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir
Í 42. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.
Í 2. tölulið eru lagðar til breytingar á hugtakanotkun þar sem lagt er til að hugtakið „starfsendurhæfing“ komi í stað hugtaksins „atvinnutengd endurhæfing“. Í greinargerð með 42. gr. frumvarpsins segir m.a.: „Ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur breytingu á hugtakanotkun vegna hættu á að hugtakinu verði ruglað saman við hugtakið „atvinnutengd starfsendurhæfing“ sem veitt er samkvæmt lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Starfsendurhæfingarsjóðir annast atvinnutengda starfsendurhæfingu og er einn starfsendurhæfingarsjóður starfandi í dag, VIRK starfsendurhæfingarsjóður.“
Það er skoðun Alþýðusambandsins að þrátt fyrir góðan vilja sé framangreind breyting ekki til þess fallin að skýra málið eða gera það einfaldara. Alþýðusambandið telur að betur fari á því að hugtakið „starfshæfing“ komi í stað hugtaksins „atvinnutengd endurhæfing“ í núgildandi lögum. Hvoru tveggja er að með því er komið í veg fyrir að verði sé að rugla saman hugtökum og að miðað við verkefni Vinnumálastofnunar skv. lögunum er frekar um það að ræða að stofnunin aðstoði einstaklinga við að „hæfa“ sig frekar en að „endurhæfa“.

Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ