Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir (seinni hluti)

Reykjavík, 31. janúar 2018
Tilvísun: 201712-0015


Efni: Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 26. mál
Alþýðusamband Íslands veitti umsögn um ofangreint mál þann 11. janúar sl. Með þessari umsögn viljum við koma á framfæri frekari athugasemdum sem lúta að 10 gr. frumvarpsins um notendasamninga.
Í fyrri umsögn ASÍ um málið (undir lið 1. Notendastýrð persónuleg aðstoð) eru viðraðar efasemdir um að fjármögnun verkefnisins sé með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði um laun og önnur starfskjör skv. kjarasamningum. Auk þess er bent á að skoða þurfi betur og finna lausnir á ráðningasambandi, vinnuverndar- og aðbúnaðarmálum, siðferðilegum álitamálum og fræðslumálum.
ASÍ telur rétt að árétta að ofangreindir þættir sem þarfnast skoðunar og úrlausnar, gilda hvort heldur um starfsmenn sem vinna samkvæmt notendasamningi (beingreiðslusamning) eða notendastýrðri persónulegri aðstoð.
Í því sambandi er vakin athygli á að á samningssviði ASÍ hafa einungis verið gerðir kjarasamningar við NPA miðstöð og SM starfsmannamiðlun. Undanþágur til sólarhringsvakta eru t.a.m. einungis heimilar að undangengnu slíku samkomulagi, samanber lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur