Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur (1)

Reykjavík 30.11 2009

Mál 200911-0043

 

Efni: Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur (112 mál).

Alþýðusamband Íslands skilaði umsögn um málið þegar það var til umfjöllunar á 137 löggjafarþingi. Í henni kom fram, að ASÍ telur að markmið þjóðaratkvæðagreiðslna sé og eigi að vera það, að veita þjóðinni vald til þess binda hendur löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla eigi með öðrum orðum að vera bindandi en ekki leiðbeinandi og skapa frávik frá meginreglu hefðbundinnar stjórnskipunar um fulltrúalýðræði.

ASÍ studdi mjög eindregið frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum sem flutt var af þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Birki J. Jónssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni á 136 löggjafarþingi. Málið náði ekki fram að ganga. Afstaða ASÍ er óbreytt og styður sambandið það mjög eindregið að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig að beint og milliliðalaust lýðræði verði tekið upp hér á landi. Líta má á það frumvarp sem nú er flutt sem jákvætt skref í þá átt og styður ASÍ framgang þess.

Hvað efni frumvarpsins varðar að öðru leyti leggur ASÍ til að frumvarpinu verði breytt og inn í það felldar heimildir til þess að framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu með stuðningi tiltekins hlutfalls kosningabærra manna og að niðurstaðan verði leiðbeinandi fyrir Alþingi með sama hætti og gert er ráð fyrir í 1.gr. frumvarpsins. Jafnframt er það mat ASÍ að tímamörk 1.mgr. 4.gr. séu of rúm.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl,

lögfræðingur ASÍ