Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um þingsköp Alþingis (líftími þingmála)

Reykjavík: 19.3 2018
Tilvísun: 201803-0021

Efni: Frumvarp til laga um þingsköp Alþingis (líftími þingmála), 222. mál

Alþýðusamband Íslands styður alla viðleitni til þess að auka skilvirkni Alþingis sem og allar aðgerðir sem stuðlað geta að því að auka virðingu Alþingis og sess sem eins af þremur örmum ríkisvaldsins, sem á hverjum tíma sé í færum til þess að veita framkvæmdavaldinu nauðsynlegt og eðlilegt aðhald og eftirlit.

Frumvarp þetta felur annars vegar í sér að þingmál skuli lifa hvert kjörtímabil í stað þess að lifa hvert þing fyrir sig eins og nú er, hvort sem þau komist á dagskrá þingsins eða ekki, og að viðeigandi þingnefnd verði gert skylt að gefa álit á öllum málum sem til þeirra er vísað, hvort heldur þeim sé vísað til annarrar eða þriðju umræðu á því sama þingi. Eins og í greinargerð segir, er það mat flutningsmanna að breytingar þær sem frumvarpið boðar muni styrkja störf og lýðræðislega virkni þingsins.

Ekki er augljóst hvernig þetta mál geti styrkt störf og lýðræðislega virkni Alþingis. Augljós afleiðing af samþykkt þess er, að stjórn þingsins mun sjá til þess að engin mál sem meirihluti Alþingis er ekki sáttur við fáist tekin til fyrstu umræðu, einfaldlega til þess að tryggja að nefndir þingsins sitji ekki fastar við að móta afstöðu til þeirra við þinglok, á kostnað þeirra mála sem brýnt er að ljúka. Frumvarpið gæti því unnið gegn því að einstök mál þingmanna fengust tekin til fyrstu umræðu, ólíkt því sem nú er þó ekki séu þau mörg.

Alþýðusamband Íslands veitir Alþingi umsagnir um fjölmörg mál á hverju þingi, stundum oftar en einu sinni um sama mál, hafi það fallið niður milli þinga. Það veldur ekki sérstökum erfiðleikum og oft taka mál raunar breytingum milli þinga og því full efni til þess að endurnýja umsagnir í ljósi þeirra.

Þessi afstaða kom fram við fyrri flutning þessa máls og er óbreytt.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ