Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins

Reykjavík, 21. apríl 2010

Tilvísun: 200912-0011

Umsögn ASÍ um frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins, mál nr. 256.

Alþýðusamband Íslands stóð ásamt, BSRB, BHM ,KÍ, SSF, SA, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórninni að gerð Stöðugleikasáttmála síðastliðið sumar. Aðilar sáttmálans voru sammála um mikilvægi þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem allra fyrst. Slíkt yrði gert með aukinni tekjuöflun og samdrætti í útgjöldum.

Aðilar sáttmálans voru sammála um að hlutur tekjuöflunar í nauðsynlegum aðlögunaraðgerðum yrði ekki hærra hlutfall en 45% af heildaraðlöguninni yfir tímabilið 2009 til 2011. Það er mat Alþýðusambandsins að það reyni mjög á þetta hlutfall þegar á næsta ári.

Þegar unnið var að gerð Stöðugleikasáttmálans var gert ráð fyrir að aðlögunarþörf ríkisfjármála væri 3,9% af VLF á næsta ári. Við endurskoðun á sameiginlegri efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda í haust var aðlögunarþörf opinberra fjármála metin 5,5%. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir 6,9% aðlögun ríkisfjármála. Nefnt hefur verið að með þeim breytingum sem nú er stefnt að á tekjuhlið ríkisfjármálanna muni aðlögunin nema um 6,1% af VLF. Aðlögunin stefnir því í að vera 0,6% stigum meiri af VLF en sameiginleg efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS gerir ráð fyrir. Þessi munur jafngildir rúmum 8 milljörðum. Hluti skýringarinnar kann að liggja í því að annars vegar er verið að ræða um fjármál hins opinbera þ.e. ríkis og sveitarfélaga og hins vegar ríkisfjármál. Ekkert bendir þó til að afkoma sveitarfélaganna sé að versna það mikið að það kalli á svo aukna aðlögun hjá ríkinu. ASÍ telur mikilvægt að aðlögunarþörfin verði yfirfarin áður en skattafrumvörpin verða lögfest. Reynist svigrúm til að draga úr aðlögun ríkisfjármála fyrir árið 2010 verði það svigrúm notað til að draga úr áformuðum skattahækkunum á almenning.

Alþýðusamband Íslands fagnar því að efla eigi jöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins með upptöku þrepaskatts. Ávinningurinn af þrepaskattskerfi er tvíþættur; annars vegar eykst tekjujöfnun og hins vegar lækka jaðarskattar á lægri tekjur. En jaðaráhrif skatta- og bótakerfanna eru mest á lægstu tekjurnar þar sem skerðingar barnabóta, vaxtabóta og bóta almannatrygginga hafa mest áhrif á þá tekjulægstu.

ASÍ telur mikilvægt að gerðar verði tvær efnislegar breytingar á framkomnum hugmyndum um þrepaskatt; að skattprósentan í lægsta skattþrepinu verði lækkuð um 1%-stig og að lögfest verði að tekjuviðmið skattþrepanna hækki í samræmi við neysluverðsvísitölu. Verði slík hækkun ekki lögfest er hætt við raunlækkun viðmiðunarfjárhæða. Gerist slíkt mun hærra skattþrep leggist á sífellt lægri rauntekjur. Um slíkt kerfi mun aldrei ríkja sátt.

Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega þeim breytingum sem felast í 15. gr. og 24. gr. frumvarpsins og miða að því að fella brott verðtryggingu persónuafsláttar og sérstaka 3.000 kr hækkun persónuafsláttar sem búið var að lögfesta og átti að koma til framkvæmda tekjuárið 2011. Báðar þessar hækkanir er komnar til vegna yfirlýsinga ríkisstjórna í tengslum við kjarasamninga ASÍ þar sem markmiðið var að bæta stöðu þeirra tekjulægstu. Rétt er að rifja upp að ASÍ hafði lengi barist fyrir því að fá aftur inn ákvæði um verðtryggingu persónuafsláttar enda hafði rýrnun persónuafsláttarins á árunum þar á undan bitnað hart á lágtekjufólki.

Benda má á að lágtekjufólk mun búa við þyngri skattbyrði af tekjuskatti á næsta ári, þrátt fyrir að tekið verið upp þrepaskattskerfi, en að óbreyttu skattkerfi. Slíkt er með öllu óásættanlegt.

Alþýðusamband Íslands leggst eindregið á móti því að sjómannaafsláttur verði feldur niður. Miðstjórn ASÍ hefur ályktað sérstaklega um afnám sjómannaafsláttarins eða eins og segir í ályktuninni: „Miðstjórn ASÍ mótmælir boðuðum breytingum á skattlagningu tekna sjómanna og bendir á að við gerð stöðugleikasáttmálans í vor var því heitið að ekki yrði „gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á“ eins og þar segir.“.