Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki

Umsögn um frumvarp til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, 82. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, 82. mál.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt, 81. mál.

Markmið beggja frumvarpa er að efla rannsóknir og þróunarstarf nýsköpunarfyrirtækja. Annars vegar er ætlunin að veita slíkum fyrirtækjum skattfrádrátt vegna kostnaðar sem til fellur vegna nýsköpunarverkefna og hins vegar að veita frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga einstaklinga og lögaðila í fyrirtækjunum.

Þingmál svipaðs eðlis kom til umsagnar ASÍ í mars á síðasta ári og aftur í mars á þessu ári. Í þeim umsögnum var tekið jákvætt í tillögur um skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunarstarfs. ASÍ lítur svo á að efling rannsókna og þróunarstarfs sé ein af forsendum þess að hér á landi megi byggja upp öflugt atvinnulíf til framtíðar.

Alþýðusamband Íslands mælir með því að það frumvarp sem hér er til umsagnar verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ