Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík

Reykjavík 29. apríl 2010

Tilvísun: 201004-0026

Efni: Frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, 548. mál

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, 548. mál.

Alþýðusamband Íslands stóð að gerð stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar á síðasta ári. Í sáttmálanum segir m.a.:

„Þessi stöðugleikasáttmáli er gerður við mjög erfiðar aðstæður í efnahags- og atvinnumálum sem bitna hart á heimilum og atvinnulífinu í landinu. Við þessar kringumstæður hafa aðilar þessa sáttmála sameinast um aðgerðir til að vinna þjóðina út úr vandanum.

Markmið stöðugleikasáttmálans er að stuðla að endurreisn efnahagslífsins. Í upphafi viðræðna settu samningsaðilar sér markmið um að í lok árs 2010 verði verðbólga ekki yfir 2,5%, halli hins opinbera verði ekki meiri en 10,5% af VLF, dregið hafi úr gengissveiflum, gengið styrkst og hafi nálgast jafnvægisgengi. Einnig verði vaxtamunur við evrusvæðið innan við 4%. Þannig hafi skapast skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti, nýrri sókn í atvinnumálum og grunnur lagður að bættum lífskjörum til framtíðar.“

Í fjórða kafla sáttmálans er fjallað framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu en þar segir m.a.: „Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir sbr. minnisblað vegna verklegra framkvæmda dags. 16.06.2009 o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009. Aðkoma lífeyrissjóða að slíkum verkefnum útilokar ekki þátttöku annarra fjárfesta eða lánveitenda, innlendra sem erlendra.“

Alþýðusamband Íslands telur frumvarpið jákvætt og rökrétt framhald af stöðugleika-sáttmálanum og mælir því með samþykkt þess.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ