Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins, eignarhlutur ríkisins til Landsvirkjunar

Frumvarpið sem hér er fjallað um felur í sér að gera Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins að dótturfélögum Landsvirkjunar. Í frumvarpinu sjálfu kemur ekki skýrt fram hver séu markmiðin með því, en í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að með breytingunum verði hagræðing í rekstri félaganna og eins muni breytingarnar styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Þrátt fyrir ákvæði í frumvarpinu sem eiga að tryggja áfram virka samkeppni á raforkumarkaði eftir breytingarnar telur Alþýðusambandið að þau ákvæði séu ekki nægjanleg. Eftir breytinguna mun samkeppnisstaða Landsvirkjunar verða sterkari en áður, sem felst m.a. í styrkari eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Frumvarpið mun því stríða gegn markmiðum raforkulaga sem sett voru í mars 2003, en meginmarkmið þeirra er að

...stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal:...

Skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna.”

Alþýðusambandið getur því ekki stutt frumvarpið.

F.h. Alþýðusambands Íslands,

Ingunn S. Þorsteinsdóttir

Hagfræðingur hjá ASÍ