Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl

Reykjavík, 06.05.2015
Tilvísun: 201504-0006

Efni: Frumvarp til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl
ASÍ telur mikilvægt að eign þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni þurfi að vera hafin yfir allan vafa í frumvarpinu. Jafnframt telur ASÍ óeðlilegt að heimildum til veiða á einni fisktegund sé úthlutað til sex ára þegar ekki liggur fyrir sátt um varanlegt fyrirkomulag um stjórn fiskveiða. Ennfremur hefur ASÍ verulegar áhyggjur af því að gildistími aflahlutdeilda framlengist sjálfkrafa um eitt ár, ár hvert.

Samkvæmt frumvarpinu mun ráðherra ákveða árlega þann heildarafla makríls sem íslenskum fiskiskipum er heimilt að veiða. Aflahlutdeildum er úthlutað eftir veiðireynslu þar sem 90% er úthlutað á grundvelli veiðireynslu áranna 2011-2014 og 5% til viðbótar til frumkvöðla sem nýttu makrílinn til manneldisvinnslu á árunum 2009 og 2010, samtals 95%, en það aflamark er ekki heimilt að nýta með línu eða handfærum. 5% er síðan úthlutað til þeirra báta sem veiddu makríl með línu eða handfærum á árunum 2009 – 2014 og er einungis heimilt að veiða það aflamark með línu eða handfærum. Úthlutaðar aflahlutdeildir koma til með að halda gildi sínu í sex ár frá því að lögin taka gildi og er ekki hægt að fella þær úr gildi, að hluta til eða öllu leyti, nema með sex ára fyrirvara.
Skoðun ASÍ byggir hér á stefnu sambandsins í atvinnumálum en þar segir m.a. að:

„Til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljast m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir á /í /eða undir hafsbotninum (utan netalaga) svo og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta.“

ASÍ telur að hlutdeild þjóðarinnar í auðlindararði, t.d. í formi sanngjarna veiðigjalda sé grunnforsenda fyrir úthlutun aflahlutdeilda. Hætta er á því að með fyrirliggjandi frumvarpi sé ekki sköpuð sú sátt sem nauðsynleg er um stjórn veiða á makríl. Alþýðusambandið leggur áherslu á að víðtæk sátt skapist um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Til þess að sú sátt ríki, þarf eign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni að vera skýr, hlutdeild þjóðarinnar í auðlindararði sanngjörn og skilyrði sjávarútvegs til veiða hagkvæm og sjálfbær.

Alþýðusambandið leggst gegn samþykkt frumvarpsins eins og það liggur fyrir og telur mikilvægt að aflaheimildum sé úthlutað til eins árs á meðan farið verði í endurskoðun á heildarfyrirkomulagi um stjórn fiskveiða.

f.h. ASÍ
Róbert Farestveit,
hagfræðingur