Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða

Reykjavík, 22. febrúar 2013
Tilvísun: 201302-0023
 
Efni: Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 570. mál
 
Afstöðu sína til frumvarpsins byggir ASÍ á stefnu sambandsins í atvinnumálum en í henni segir m.a.:
„Til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljast m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir á /í /eða undir hafsbotninum (utan netalaga) svo og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta. Við útgáfu nýtingarleyfa á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar skal m.a. hafa eftirfarandi að leiðarljósi: 
Leyfin skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem gerð eru opinber í auglýsingum. 
Setja skal ströng skilyrði fyrir veitingu leyfanna, m.a. um að áætlanir um rannsóknir og nýtingu séu í samræmi við stefnu um nýtingu og vernd auðlinda, að þær uppfylli kröfur um umhverfismat og skipulag og gangi ekki gegn reglum um réttindi launafólks, laun og vinnuvernd. 
Gegn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við,til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur). 
Gæta ber hófs við beitingu eignarnámsheimilda og tryggt verður að vera að efnisleg skilyrði um almannaþörf sem og öll formleg skilyrði séu uppfyllt.“
Síðar í stefnunni er fjallað um aðlögun að breytingum í atvinnulífinu en um slíkar breytingar segir:
„Þróun í atvinnulífinu getur haft í för með sér tímabundna erfiðleika fyrir einstök heimili, fyrirtæki eða byggðarlög. Til að gæta réttlætis og stuðla að víðtækri sátt þarf að gefa öllum tækifæri á að laga sig að breytingum. Í þessu tilliti er einkar mikilvægt að tryggja virka upplýsingamiðlun svo og samráð og samningaviðræður á öllum stigum breytinga, hvort sem um er að ræða skipulagsbreytingar eða tækniinnleiðingu. Styrki vegna aðlögunar á helst að útfæra með almennum aðgerðum, t.d. gegnum skatta- og velferðarkerfið. Ef þörf er á sértækum aðgerðum eiga þær að vera tímabundnar, gagnsæjar, óframleiðslutengdar, miða að atvinnusköpun, vera árangursríkar með tilliti til kostnaðar og samræmdar að hinu almenna velferðarkerfi.“ 
 
Um sjávarútveginn segir í stefnunni:
„Núverandi afskipti af sjávarútvegi (kvótakerfið) stuðlar í meginatriðum að hagkvæmri sókn í leyfilegan heildarkvóta. Stjórnvöld fara með eignarréttinn yfir auðlindinni í umboði þjóðarinnar. Þetta þýðir m.a. að þeim ber að ákveða heildarkvóta út frá vísindalegum niðurstöðum um afkomu stofna.“
 
Eftirfarandi eru helstu markmið frumvarpsins og falla þau vel að framangreindri stefnu ASÍ í atvinnumálum:
Að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland.
Að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
Að treysta atvinnu og byggð í landinu
Að auka vægi jafnræðissjónarmiða við ráðstöfun aflaheimilda.
Að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu.
Að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi.
 
Þegar frumvarpið er skoðað vakna verulegar efasemdir um að það sé til þess fallið að stuðla að framangreindum markmiðum. Frumvarpið virðist þannig hvorki til þess fallið að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu né heldur að tryggja að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Þá má draga í efa að frumvarpið stuðli að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi né heldur að treysta atvinnu og byggð í landinu. 
Helstu veikleikar frumvarpsins eru að verið er að veikja rekstrargrunn sjávarútvegsins. ASÍ telur mikilvægt að lög um stjórn fiskveiða séu ávallt þannig úr garði gerð að þau stuðli að því að sjávarútvegurinn geti verið arðsöm atvinnugrein og búið við stöðugt rekstarumhverfi þannig að greinin geti gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki sínu í atvinnuháttum á landsbyggðinni. 
 
ASÍ telur að of langt sé gengið í frumvarpinu í sértækum aðgerðum sem veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. ASÍ vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við frumvarpið:
ASÍ telur óheppilegt að takmarka framsal aflahlutdeilda við það magn í þorskígildum talið sem var skráð á viðkomandi nýtingarleyfi við upphaf fiskveiðiársins 2013/2014 eins og gert er í 12. gr. frumvarpsins. ASÍ leggur til að síðasta mgr. 12. gr. verði felld brott.
ASÍ telur að allt of stór hluti aflahlutdeilda eigi að fara í flokk 2 en það er sá hluti kerfisins þar sem hagkvæmni er minnst. Samkvæmt yfirlitstöflu í bráðabirgðaákvæði VIII má gera ráð fyrir að flokkur 2 geti vaxið um rúm 24.000 þorskígildistonn á þremur árum en það jafngildir 115% aukningu. Slík aukning kallar á mikla offjárfestingu í smábátum sem aðeins eru nýttir hluta úr ári. Aukningin í flokki 2 er með beinum eða óbeinum hætti tekin af flokki 1. Slík tilfærsla dregur úr atvinnuöryggi þeirra sem starfa við sjómennsku og fiskvinnslu að aðalstarfi og veikir getu greinarinnar til að greiða sérstakt veiðigjald sem tryggja á þjóðinni eðlilega hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlindarinnar getur skapað. Sérstaklega varar ASÍ við því ákvæði að 50% aflamarks þorsk umfram 240 renni í flokki 2. ASÍ telur eðlilegt að flokkur 2 verði fastsettur sem hlutfall af heildaraflahlutdeildum og taki síðan sömu hlutfallslegu breytingum og flokkur 1.
Gert er ráð fyrir að áfram verði stundaðar strandveiðar með sama hætti og áður. Þessar veiðar eru óhagkvæmar og rökin að baki þeim eru orðin enn veikari eftir að hluta aflamarks verður ráðstafað í gegnum kvótaþing. ASÍ leggur til að strandveiðipottur í núverandi mynd verði aflagður og sú aflahlutdeild sem sett hefur verið í strandveiðipottinn verði ráðstafað í gegnum kvótaþing. Slík ráðstöfun er eðlileg þar sem ná má þeim markmiðunum sem sett voru með strandveiðipottinum í gegnum kvótaþing. Að auki auðveldar það eðlilega verðmyndun á kvótaþingi.
ASÍ getur ekki fallist á að löggjafinn hlutist til um kjör sjómanna eins og gert er með 27. gr. frumvarpsins. Samkvæmt kjarasamningi eiga sjómenn að fá hlut úr heildaraflaverðmæti afla.
Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að eitt af skilyrðum fyrir úthlutun aflahlutdeildar eða aflamarks að í gildi sé kjarasamningur. ASÍ leggur mikla áherslu á að slíkt ákvæði sé lögfest.
 
ASÍ getur ekki stutt að frumvarpið verði að lögum nema að gerðar verði á því veigamiklar breytingar sem komi til móts við þau sjónarmið sem að framan hafa verið rakin.
 
 
F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason
hagfræðingur ASÍ