Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (2)

Reykjavík, 4. apríl 2008

Tilvísun: 200803-0012

 

Efni: Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 147. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 147. mál.

Í frumvarpinu er lagt til að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd til að móta heildarstefnu í sjávarútvegsmálum sem komi í stað núverandi laga um stjórn fiskveiða. Í rökstuðningi kemur fram að þetta sé nauðsynlegt þar sem núverandi lög hafi beðið skipbrot: Nytjastofnar standi höllum fæti, fiskveiðiauðlindin sé nýtt með óhagkvæmum hætti, störfum í greininni hafi fækkað og dregið hafi úr mætti sjávarbyggða um land allt.

ASÍ tekur undir áhyggjur af þeim vanda sem kominn er upp í mörgum sjávarbyggðum. Að mati sambandsins væri það samt talsverð einföldun að skella sökinni á þessu nær eingöngu á stjórnkerfi fiskveiða. Vandi sjávarbyggða er margþættur og stafar ekki hvað síst af einhæfu atvinnulífi, erfiðum samgöngum, fólksfækkun o.fl. Í þessu ljósi telur ASÍ að til að bæta stöðu sjávarbyggðanna væri árangursríkara að standa fyrir mótun heildstæðrar atvinnuþróunarstefnu í landinu heldur en að einblína á lögin um stjórn fiskveiða.

F. h. Alþýðusambands Íslands,

______________

Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ