Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um stimpilgjald

Reykjavík: 16.10.2013        
Tilvísun: 201310-0008
 

Efni: Frumvarp til laga um stimpilgjald (heildarlög) 4. mál.

Frumvarpið í heild felur í sér talsverða einföldun frá því sem gildandi lög mæla fyrir um en gerðar eru eftirfarandi athugasemdir.

Einstaklingur sem kaupir fasteign í dag, greiðir samkvæmt gildandi lögum 4 kr. í stimpilgjald eða 0,4%, af hverju byrjuðu þúsundi m.v. fasteignamat eignar. Gjald þetta er nú tvöfaldað og hækkað í 0,8% af kaupverði. Á móti kemur að stimpilgjöld vegna þeirra veðlána sem tekin eru vegna kaupanna eru felld niður. Það sama á við um endurfjármögnun.

Með lögum nr. 59/2008 voru skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð voru með veði í fasteign og gefin út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings gerð stimpilfrjáls. Með frumvarpinu fylgir mat á áhrifum þess. Þar segir m.a.:

„Sem dæmi má taka fjölskyldu sem fjárfestir í eigin húsnæði (samningur um eigendaskipti). Hún fjármagnar kaupin með eigin fé og 65% lántöku af kaupverði (lánasamningur með veði). Sé kaupverð eignarinnar 35 millj. kr. og lánsfjárhæðin 23 millj. kr. greiðir viðkomandi fjölskylda 140 þús. kr. í stimpilgjald af kaupsamningi og 345 þús. kr. í stimpilgjald af skuldabréfinu, eða samtals 485 þús. kr. miðað við gildandi reglur. Verði frumvarpið að lögum mun umrædd fjölskylda greiða 280 þús. kr. í stimpilgjald og viðskiptakostnaður hennar því lækka um 205 þús. kr., eða um 0,6% af kaupverði fasteignarinnar. Hefði viðkomandi fjölskylda ekki þurft að fjármagna kaupin með lánum hækkar viðskiptakostnaður hennar um 140 þús. kr. við breytinguna.“

Þetta dæmi er villandi. Samkvæmt gildandi lögum hefði einstaklingur í fyrstu kaupum greitt 140 þús. kr. í stimpilgjald vegna kaupsamnings eða afsals og enn lægri fjárhæð hafi fasteignamat eignar legið undir markaðsverði. Hann hefði síðan ekkert stimpilgjald greitt vegna 23 millj. kr. lánsins. Verði frumvarp þetta að lögum mun þessi sami einstaklingur greiða 280 þús. kr. í stimpilgjald í stað 140 þús. kr. vegna kaupsamnings eða afsals og eins og fyrr ekkert stimpilgjald vegna veðlánsins. Kostnaður þessarar fjölskyldu hækkar um 0,4% af kaupverði.
 
ASÍ hvetur til þess að frá þessari hækkun verði horfið í meðförum Alþingis.

ASÍ fagnar því hins vegar að þær lækkanir á stimpilgjöldum sem gerðar voru með 31.gr. laga nr. 146/2012 haldi sér og eins að gjaldstofn verði kaupverð eignar en ekki fasteignamat en það mun lækka gjaldið vegna eigna á þeim landssvæðum þar sem fasteignamat er hærra en gangverð.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ