Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um starfstengda eftirlaunasjóði, EES reglur

Alþýðusambandinu hefur borist beiðni um umsögn um fyrrgreint frumvarp til laga um réttindi launafólks sem greiðir til svokallaðra starfstengdra eftirlaunasjóða í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB.

Þess má geta að Alþýðusamband Íslands hafði beina aðkomu að viðræðum við samtök atvinnurekenda á Evrópuvísu fyrir nokkrum árum, þegar tilraun var gerð til þess að gera kjarasamning um lágmarksréttindi í lífeyrissjóðum innan ESB og EES. Í þeim viðræðum kom í ljós það mikill munur er á grundvelli lífeyrisréttinda innan Evrópu að ekki reyndist mögulegt að mynda slíkan lágmarksgrundvöll. Sum þessara lífeyriskerfa eru grundvölluð á lögum og önnur samningsbundin milli aðila vinnumarkaðar, en mynda engu að síður grundvöll almannaréttar. Sum þessara lífeyriskerfa í Evrópu, eins og t.d. í Bretlandi og Þýskalandi, eru hins vegar tengd einstaka fyrirtækjum í formi starfstengdra eftirlaunasjóða, þar sem fulltrúar starfsmanna hafa takmarkaða aðkomu og engar eða litlar reglur gilda um meðferð fjár, ávinnslu réttinda eða lágmarksréttindi.

Í ljósi þessarar niðurstöðu kröfðu Evrópusamtök verkalýðsfélaga Framkvæmdastjórn ESB um að sett yrði tilskipun sem tryggði ákveðin lágmarksréttindi í þeim sjóðum, sem ekki teldust hluti almannatryggingarkerfisins, sbr. starfstengdu eftirlaunasjóðina. Alþýðusambandið studdi þá kröfugerð byggt á þeirri forsendu að það raskaði ekki forsendum eða stöðu íslenska lífeyriskerfisins, sem byggir á víðtæku samkomulagi um þriggja stoða kerfi almannatrygginga, skylduaðild að samtryggingarsjóði og frjálsum viðbótarsparnaði. Niðurstaðan var umrædd tilskipun sem nú þarf að innleiða hér á landi, þrátt fyrir að vandfundinn sé sjóður sem starfi á þessum grundvelli.

Af fyrrgreindum ástæðum styður ASÍ samþykkt þessa frumvarps.

 

Með kveðju,

Gylfi Arnbjörnsson,

framkvæmdastjóri ASÍ