Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga

Reykjavík: 30.04.2013
Tilvísun: 201303-0014
 
 
 
Efni: Frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga (heildarlög), 635. mál.
 
Ljóst er af lestri frumvarpsins að það mælir ekki fyrir um verulegar breytingar á núgildandi ákvæðum laga um almannatryggingar nr. 100/2007, enda er meginmarkmið frumvarpsins formlegs eðlis, þ.e. að einfalda regluverk almannatrygginga. 
Efnisleg athugasemd Alþýðusambands Íslands við frumvarpið lítur að skilgreiningu á slysahugtakinu. Í síðari málslið 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er hugtakið slys skilgreint með eftirfarandi hætti:
 
„Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.“
 
Skilgreining þessi er samhljóða þeirri sem er nú að finna í síðari málslið 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og felur því fyrirliggjandi frumvarp ekki í sér efnislega breytingu á slysahugtakinu. Það telur Alþýðusamband Íslands vera afar miður enda er hugtakið eins og það er nú gallað að mati Alþýðusambands Íslands. 
 
Í fyrsta lagi er slysahugtakið gallað vegna þess að það gerir að skilyrði að „utanaðkomandi atburður“ hafi valdið slysi. Í framkvæmd hjá Sjúkratryggingum Íslands hefur þetta þýtt hvað varðar tryggingarrétt launafólks við vinnu að einstaklingar sem slasast t.d. í fallslysum vegna þess að þeim skrikar fótur og vegna líkamlegrar ofraunar eru ekki tryggðir gegn tjóni sínu í gegnum almannatryggingar. Í ljósi framangreinds eru nokkrir tugir einstaklinga á ári hverju sem njóta ekki trygginga við vinnu sína þrátt fyrir að hafa orðið fyrir slysi. þ.e. hafi orðið fyrir líkamstjóni án þess að stórkostlegt gáleysi eða ásetningur hafi valdið líkamstjóninu.
 
Í öðru lagi er slysahugtakið, eins og það er skilgreint í frumvarpinu, gallað vegna þess að það samræmist hvorki alþjóðlegum skilgreiningum á slysahugtakinu, né því slysahugtaki sem Vinnueftirlit ríkisins miðar við. Framangreint getur leitt til aukinnar hættu á því að við mat á því hvaða þættir skipti mestu máli í forvörnum vinnuslysa myndist skekkja sem helgist af þeirri staðreynd að hinn slasaði eigi mjög ríka hagsmuni undir því að líkamstjón einstaklings sé metið sem slys í skilningi almannatryggingaréttar. Vill því Alþýðusamband Íslands taka undir það sem fram kemur í umsögn Vinnueftirlitsins við frumvarpið um mikilvægi samræmingar á vinnuslysahugtakinu. Styður Alþýðusamband Íslands því tillögu Vinnueftirlitsins um að í stað síðari málsliðs 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins komi nýr málsliður sem sé svohljóðandi:    
 
„Með slysi er átt við skyndilegan, óvæntan atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.“
 
 
Virðingarfyllst, 
Halldór Oddsson.  
Lögfræðingur hjá ASÍ