Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga (heildarlög)

Reykjavík: 9.12.2014
Tilvísun: 201412-0004


Efni: Frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga (heildarlög), 402. mál

Ljóst er af lestri frumvarpsins að það mælir ekki fyrir um verulegar breytingar á núgildandi ákvæðum laga um sama efni.

Efnisleg athugasemd Alþýðusambands Íslands við frumvarpið lítur að skilgreiningu á slysahugtakinu. Í síðari málslið 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er hugtakið slys skilgreint með eftirfarandi hætti:

„Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.“

Skilgreining þessi er samhljóða þeirri sem er nú að finna í lögum um almannatryggingar og felur því fyrirliggjandi frumvarp ekki í sér efnislega breytingu á slysahugtakinu. Það telur Alþýðusamband Íslands vera afar miður enda er hugtakið eins og það er nú gallað.

Í fyrsta lagi vegna þess að það gerir að skilyrði að „utanaðkomandi atburður“ hafi valdið slysi. Í framkvæmd hjá Sjúkratryggingum Íslands hefur þetta þýtt hvað varðar tryggingarrétt launafólks við vinnu að einstaklingar sem slasast t.d. í fallslysum vegna þess að þeim skrikar fótur eða vegna líkamlegrar ofraunar eru ekki tryggðir gegn tjóni sínu í gegnum almannatryggingar. Í ljósi framangreinds eru nokkrir tugir einstaklinga á ári hverju sem njóta ekki trygginga við vinnu sína þrátt fyrir að hafa orðið fyrir slysi. þ.e. hafi orðið fyrir líkamstjóni án þess að stórkostlegt gáleysi eða ásetningur hafi valdið líkamstjóninu.

Í öðru lagi er slysahugtakið, eins og það er skilgreint í frumvarpinu, gallað vegna þess að það samræmist hvorki alþjóðlegum skilgreiningum á slysahugtakinu, né því slysahugtaki sem Vinnueftirlit ríkisins miðar við. Framangreint getur leitt til aukinnar hættu á því að við mat á því hvaða þættir skipti mestu máli í forvörnum vinnuslysa myndist skekkja sem helgist af þeirri staðreynd að hinn slasaði eigi mjög ríka hagsmuni undir því að líkamstjón einstaklings sé metið sem slys í skilningi almannatryggingaréttar. Vill því Alþýðusamband Íslands taka undir það sem fram kom í umsögn Vinnueftirlitsins við mál 635 á 141 löggjafarþingi um mikilvægi samræmingar á vinnuslysahugtakinu. Styður Alþýðusamband Íslands það sjónarmið Vinnueftirlitsins eindregið og leggur til að skilgreiningu 1.mgr. 5.gr. verði breytt þannig að þar komi:

„Með slysi er átt við skyndilegan, óvæntan atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.“

ASÍ leggur einnig til að orðalagi b. liðar 2.mgr. 5.gr. verði breytt þannig að í stað þess að vísað sé til „nauðsynlegra“ ferða til vinnu og frá sé vísað til þess að maður sé á „eðlilegri leið“ til vinnu og frá og samræmist slík breyting skilmálum þeirra atvinnuslysatrygginga sem samið hefur verið um á vinnumarkaði. Ákvæði b. liðar er jafnframt bundið við að starfsmaður sé á leið milli vinnu og heimilis en gerir hvorki ráð fyrir að hann geti verið á leið til eða frá viðlegustað til vinnu eða til eða frá heimil til viðlegustaðar. Þetta er gloppa í lögunum, tilkomin á þeim árum er fólk stundaði að jafnaði vinnu nálægt heimil sínu. Af ofangreindum ástæðum er lagt til að b. liður 2.mgr. 5.gr. hljóði svo:

„Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða á eðlilegri leið til vinnu og frá, enda sé um að ræða ferðir sem eru farnar samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Hafi maður vegna vinnu sinnar viðlegustað utan heimilis kemur viðlegustaður í stað heimilis og tekur þá tryggingin einnig til eðlilegra ferða milli heimilis og viðlegustaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.“

Að lokum leggur ASÍ til, að 4.mgr. 5.gr. verði breytt þannig að tryggingin gildi þó bótaskylda sé fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda, verði slysið utan Íslands. Almennt er verulegum vankvæðum háð fyrir einstaklinga að sækja skaðabætur úr tryggingum erlendis auk þess sem tryggja verður sönnun í samræmi við þar gildandi rétt, venjur og hefðir sem oftar en ekki er ekki á færi venjulegs fólks, hvað þá ef slasað er. Breytt ákvæði gæti þá gert ráð fyrir að Tryggingastofnun fengi kröfuna framselda úr hendi hins slasaða kjósi hann að sækja rétt sinn hér á landi fremur en erlendis.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ