Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um skráningu raunverulegra eigenda

Reykjavík: 30.4.2019
Tilvísun: 201904-0029

Efni: Frumvarp til laga um skráningu raunverulegra eigenda, 794. mál

Alþýðusamband Íslands gerir alvarlega athugasemd við 14.tl. 1.mgr. 2.gr. frumvarpsins sem fellt getur stéttarfélög undir ákvæði laganna.

Í greinargerð með 2.gr. segir. „ Í 2. gr. eru taldir upp þeir aðilar sem lögin taka til en um er að ræða aðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Gildissvið frumvarpsins byggir á 1. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og ákvæðinu var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843.“ Þessi fullyrðing er bæði röng og villandi. Í fyrrgreindum heimildum er hvergi gert ráð fyrir nokkurri skráningu stéttarfélaga.

Raunverulegir eigendur stéttarfélaga eru greiðandi félagsmenn á hverjum tíma auk eldri félagsmanna sem borið geta takmörkuð réttindi. Óheimilt er að nota félagaskrár eða upplýsa um stéttarfélagsaðild manna nema í þeim eina tilgangi að félagsmenn geti nýtt sér félagsleg réttindi sín eins og t.d. vegna afgreiðslu kjarasamninga, kosningar félagsstjórnar o.fl. Aðild manna að stéttarfélögum og stéttarfélögin sjálf njóta sérstakrar verndar í stjórnarskrá og með engum hætti hægt að sjá í hvaða tilgangi þeirra sé sérstaklega getið frumvarpinu eða við hvaða aðstæður ákvæði þess geti átt við um þau.

Meðan lögin sjálf eða greinargerð með þeim skilgreina ekki með skýrum hætti hvað átt sé við með hugtakinu „Stéttarfélög, þegar þau eru skráð í fyrirtækjaskrá“ er það álit ASÍ að frumvarpið geti vegið að grundvallarréttindum frjálsra stéttarfélaga og sé í beinni andstöðu við þau ákvæði stjórnarskrár, íslenskra laga og alþjóðlegra sáttmála sem Ísland á aðild að og sem vernda stéttarfélög launafólks sérstaklega. Það er jafnframt álit ASÍ, að jafnvel þó stéttarfélög gætu hugsanlega við einhverjar aðstæður fallið undir gildissvið laganna vegna skráningar í fyrirtækjaskrá, þá gangi lögin sjálf allt of langt hvað varðar upplýsingagjöf um félagsmenn að ekki sé talað um afskráningu og slit þeirra skv. 17.gr.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ