Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um skaðabótalög

Reykjavík 8.5 2018
Tilvísun: 201804-0020


Efni: Frumvarp til laga um skaðabótalög (margfeldisstuðlar, vísitölutenging o.fl.) , 441. mál

Alþýðusamband Íslands leggst ekki gegn þeim breytingum sem lagðar eru til enda um þarfa endurskoðun að ræða. Í mati tryggingafræðings kemur fram, að ætla megi að í kjölfar breytinganna gætu iðgjöld ábyrgðartryggingar ökutækja hækkað um 16% og slysatrygging ökumanns og eiganda um 26%. Bent er jafnframt á, að það sé tryggingafélaganna, hvers og eins, að ákveða sín iðgjöld og geta aðrir þættir en ofangreindir útreikningar komið til við þá ákvörðun.

Í því sambandi vill ASÍ vekja athygli á eftirfarandi.

Í útreikningum Hagstofunnar má sjá að iðgjöld fyrir bifreiðatryggingar hafa hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs síðustu ár eða um 25% frá árinu 2014 (jan 2014-jan 2018) á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7%.

Alþýðusambandið getur ekki séð að innistæða sé fyrir svo miklum verðhækkunum en þess má geta að verð á vöru og þjónustu sem tryggingafélögin notast við í sinni starfsemi hefur í flestum tilfellum lækkað síðustu ár. Verð á bílum hefur lækkað um 13% á tímabilinu (jan 2014- jan 2018) og verð á varahlutum um 20%.

Þá má taka fram að bílum hefur fjölgað töluvert á götunum síðustu ár en á sama tíma hefur meðalakstur á hvern bíl dregist saman auk þess sem tilkynnt bílslys eru hlutfallslega færri í dag en þau voru fyrir tíu árum. Vegna fjölgunar á bílum og minni meðalaksturs hafa iðgjöld pr. kílómeter því hækkað. Þrátt fyrir allar þessar breytur hafa iðgjöld hækkað mjög mikið á undanförnum árum eins og fyrr sagði.

Á þessu grafi má sjá fjölda tilkynntra bílslysa til lögreglu frá árinu 2004. Eins og sjá má hefur bílslysum fjölgað frá árinu 2012 en ef horft er til lengra tímabils eru þau færri í dag en áður en tekið er til greina að bílum í umferð hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Tölurnar eru frá Samgöngustofu.

Hagnaður tryggingafélaganna hefur og verið gríðarlegur og arðgreiðslur á hverju ári hlaupa á milljörðum en hér fyrir neðan má sjá hagnað tryggingafélaganna fyrir skatt á árinu 2017.

TM 3.207 milljónir kr.
Vís: 1.609 milljónir kr.
Sjóvá: 2.085 milljónir kr.
Vörður: 1.151 milljónir kr.

Alþýðusambandið telur að viðskiptavinir tryggingafélaganna hafa ekki notið góðs af hagstæðum ytri aðstæðum síðustu ár og að verðhækkanir tryggingafélaganna séu langt umfram það sem aðstæður segi til um. Með þessum verðhækkunum sem hafa átt sér stað hafi tryggingafélögin því nú þegar búið til svigrúm fyrir hugsanlegar hækkanir á bótafjárhæðum

Það er álit ASÍ að brýna nauðsyn beri til þess að Alþingi treysti að sú þarfa breyting sem lögð er til á skaðabótalögunum leiði ekki til hækkunar iðgjalda enda ekkert tilefni til þess og þvert á móti jafnvel tilefni til hins gagnstæða.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl., lögfræðingur ASÍ 
Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits