Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um sjúkraskrár

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um sjúkraskrár (170 mál).

Alþýðusamband Íslands styður það markmið laganna að auka gæði heilbrigðisþjónustu og draga úr kostnaði með því að tryggja heildstæðari sín á þá þjónustu sem þörf er á.

Vegna þess magns af upplýsingum sem verður aðgengilegt með samræmdum hætti munu lögin skapa ný vandamál og úrlausnarefni sem ekki eru til staðar nú með sama hætti. Mikilvægt er að þess verði gætt, að einstaklingar verði ekki þvingaðir til þess að veita upplýsingar um málefni sem þeir kjósa að gætt sé trúnaðar um. Það á m.a. við um öflun gagna á vegum tryggingarfélaga í tilefni tryggingakaupa eða mats á örorku. Hvernig þeirri vernd verður beint komið við eru ekki gerðar tillögur um en athygli á vandamálinu vakin. Það er gert með það í huga að æskilegri vernd verði fundinn staður annað af tvennu í fyrirliggjandi frumvarpi eða með breytingum á annarri löggjöf.

Miklu skiptir að vel takist til við smíði þess gagnagrunns sem halda mun utan um sjúkraskrár og telur ASÍ það mikilvægt að öll innlit og allar færslur verði rekjanlegar til þess sem lítur inn, gerir færslur eða breytir þeim.

Að lokum er vakin athygli á því, að lögin geyma ekki ákvæði um skaðabótaskyldu stofnunar eða einstaklinga gagnvart þeim sem telja að trúnaður hafi verið á sér brotinn með ólögmætri skráningu upplýsinga eða óheimilu innliti í skrár sem við viðkomandi á ekki að hafa aðgang að og sem trúnaður skal gilda mun. Hinar almennu reglur skaðabótaréttarins gilda að sönnu en mjög erfitt er að sanna tjón ef lögmætum hagsmunum er raskað og því æskilegt að lögin geymi lágmarksákvæði hér að lútandi sem styrkja myndu varnaðar áhrif 23.gr. laganna.