Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar

Reykjavík, 16.04.2014
Tilvísun: 201404-0008

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, 484 mál

Almennt um skuldalækkun
Mál þetta verður að skoða í samhengi við mál nr. 485, frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. ASÍ telur mikilvægt að þegar jafn stór mál og þessi eru til umfjöllunar á Alþingi að vandað sé til verka og að fyrir liggi ítarleg greining á umfangi og áhrifum aðgerðanna auk tillagna um nauðsynlegar aðgerðir samhliða skuldalækkuninni, sem nái m.a. til eftirfarandi þátta:
 Greining á efnahagslegum áhrifum aðgerðanna
 Tillögur að nauðsynlegum mótvægisaðgerðum stjórnvalda til að lágmarka neikvæð efnahagsleg áhrif aðgerðanna s.s. á verðlag, gengi, vexti og fjárfestingar
 Greining á áhrifum aðgerðanna á tekjur ríkis og sveitarfélaga í framtíðinni í ljósi fjölgunar eldri borgara og aukinna útgjalda vegna þjónustu við aldraða
 Greining á áhrifum aðgerðanna á mismunandi tekjuhópa
 Greining á áhrifum aðgerðanna á lífeyriskerfið til framtíðar

Um mál nr.484
Samkvæmt athugasemdum frumvarpsins ríkir óvissa um það hversu miklu af iðgjaldagreiðslum sínum í séreignarsparnað launafólk muni ráðstafa til að greiða niður húsnæðislán og leggja fyrir til húsnæðissparnaðar. Samkvæmt þeim sviðsmyndum sem birtar eru í athugasemdum frumvarpsins má ætla að 47 - 61,4 milljarðar af greiðslum í séreignarsjóð fari til greiðslu á íbúðaskuldum og 6,9 - 12,6 milljarðar fari til húsnæðissparnaðar. Því er gert ráð fyrir að allt að 74 milljarðar af iðgjaldagreiðslum séreignarsparnaðar renni til greiðslu húsnæðislána og til húsnæðissparnaðar á þriggja ára tímabili.
Þessi aðgerð er annars vegar fjármögnuð með því að einstaklingar og fjölskyldur ráðstafa eignum sínum til greiðslu á skuldum og hins vegar með framtíðar skatttekjum. Sá hluti aðgerðarinnar sem snýr að ráðstöfun eigin eignar einstaklinga og fjölskyldna hefur engin áhrif á hreina eign viðkomandi, en eign sem að óbreyttu hefði ekki verið aðfararhæf komi til harkalegra innheimtuaðgerða, verður aðfararhæf þar sem eignabreyting veldur því að sá hluti sem annars hefði tilheyrt séreignarsparnaði og þar með ekki verið aðfararhæf samkvæmt lögum verður aukin hrein eign í húsnæði sem er aðfararhæf. Ráðstöfun á framtíðarskatttekjum hefur þau áhrif að skattbyrði er færð á milli kynslóða með þeim hætti að fallið er frá skattgreiðslum þeirra sem skulda í dag með þeim afleiðingum að hækka verður skatta framtíðarinnar. Ekki liggur fyrir mat á umfangi þessa þáttar.
Í úttekt Seðlabanka Íslands um efnahagsleg áhrif aðgerða stjórnvalda til lækkunar húsnæðisskulda heimila sem birt er Peningamálum 2014-1, kemur fram að áhrifin verða eftirfarandi; einkaneysla eykst, fjármunamyndun verður minni en ella fram til ársins 2017, þjóðarútgjöld vaxa, viðskiptajöfnuður verður óhagstæðari, hagvöxtur eykst, framleiðsluspenna verður meiri, gengi krónunnar veikist, verðbólga eykst og stýrivextir verða hærri. Hagdeild ASÍ komst að svipuðum niðurstöðum í þjóðhagsspá sinni í mars sl. Því er mikilvægt að áður en ráðist er í aðgerðirnar að fyrir liggi áætlun ríkisstjórnarinnar um það hvernig brugðist verði við neikvæðum afleiðingum aðgerðanna s.s. veikingu krónunnar, aukinni verðbólgu og hækkun vaxta.
Áætlað er að ríkissjóður verði til skamms tíma af 6,9 milljarða tekjum á þriggja ára tímabili (dreifist á fjögur almanaksár) og 50 milljóna beinum kostnaði við framkvæmdina. Til lengri tíma er áætlað að ríkissjóður verði af allt að 25 milljarða skatttekjum. Beinar afleiðingar af aðgerðinni geta því þýtt tæplega 32 milljarða tekjutap fyrir ríkissjóð á nokkuð löngu tímabili. Áætlað er að sveitarfélögin verði af 3,4 milljarða tekjum til skamms tíma og 12 milljarða tekjum til lengri tíma eða samtals 15,4 milljörðum. Á móti má ætla að aukin umsvif í hagkerfinu skili auknum tekjum til skamms tíma.
Þessi aðgerð veikir verulega það sem oft er nefnt þriðja stoð lífeyriskerfisins þ.e. séreignarsparnaðarkerfið. Í nýju riti Seðlabanka Íslands um Fjármálastöðugleika kemur fram að frá hruni hafi 93,1 milljarður verið tekinn út úr séreignarsparnaðarkerfinu. Verði þetta frumvarp að lögum þá munu allt að 74 milljarðar verða teknir út úr kerfinu til viðbótar. Snemmbær úttekt séreignarsparnaðar í kjölfar hrunsins mun því veikja kerfið um tæpa 170 milljarða. Þetta er hátt hlutfall af séreignarlífeyrissparnaðarkerfinu þegar haft er í huga að í lok febrúar 2014 var hrein eign til greiðslu lífeyris 258,4 milljarðar. Afleiðingarnar verða aukið álag á velferðarkerfi framtíðarinnar og þar með á skattgreiðendur framtíðarinnar. Þá er vert að hafa í huga að þegar samið var um séreignarlífeyrissparnaðarkerfið í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði var það m.a. gert með þeim rökum að því væri ætlað að gera fólki á almennum vinnumarkaði kleift að flýta starfslokum sínum og og hverfa af vinnumarkaði fyrir 67 ára aldur líkt og opinberir starfsmenn geta gert. Veiking á þessari þriðju stoð lífeyriskerfisins eykur því enn á þann mikla mun sem er á kjörum þeirra sem annars vegar greiða í almenna lífeyrissjóði og hinna sem greiða í opinbera sjóði.

ASÍ telur mikilvægt að að hið opinbera komi til móts við þá sem eru í mestum skulda- og / eða greiðsluvanda vegna húsnæðismála. Eins og aðgerðirnar eru útfærðar er þeim ætlað að ná til mun fleiri en þeirra sem eru í mestum mestum skulda- og / eða greiðsluvanda vegna húsnæðismála. Mjög stór hópur fólks sem býr í leiguhúsnæði hefur ekki tækifæri til þess að taka þátt í séreignasparnaðarkerfinu þar sem t.d. hvorki er greitt í lífeyrissjóð né séreignasjóð af bótum né námslánum. Verði frumvarpið að lögum má ætla að verið sé að ráðstafa ríflega 47 milljörðum úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Þetta eru háar fjárhæðir og því mikilvægt að rökin fyrir ráðstöfun þeirra séu haldgóð, því samkvæmt frumvarpinu er verið að ráðstafa framtíðartekjum ríkis og sveitarfélaga og því verða börnin okkar að takast á við afleiðingarnar.

F.h. Alþýðusambands Íslands,
Ólafur Darri Andrason,
hagfræðingur ASÍ