Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands

Reykjavík 17.4.2019
Tilvísun: 201904-0010

Efni: Frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands, 790. mál

Með frumvarpinu er sett fram ný heildarlöggjöf um Seðlabanka Íslands. Megin breytingin sem lögð er til í frumvarpinu lýtur að sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Eftirlit með fjármálastarfsemi verður þannig fært undir starfsemi Seðlabanka Íslands. Auk þess eru lagðar til breytingar á stjórnkerfi Seðlabankans m.a. að þrjár nefndir, peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd taki ákvarðanir um beitingu valdheimilda. Gert er ráð fyrir að skipaður verði einn aðalseðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar sem hver um sig leiði málefni einnar nefndar. Breytingunni er ætlað að styður betur en núverandi fyrirkomulag við það mikilvæga verkefni Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að tryggja fjármálastöðugleika og hafa eftirlit með þjóðhagsvarúð. Megin markmið breytinganna er að auka skilvirkni og skýrleika ábyrgðar, bæta stjórnsýslu við ákvarðanatöku, bæta nýtingu upplýsinga og auka gæði greiningar og bæta yfirsýn.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki athugasemdir við meginefni frumvarpsins og telur markmið breytinganna skynsamleg. ASÍ telur hins vegar mikilvægt að breytingarnar verði ekki til þess að dregið verði saman í starfsemi og verkefnum þeirra stofnanna sem um ræðir og þrengt að möguleikum þeirra til að sinna eftirlits og rannsóknarhlutverki sínu og gæta hagsmuna almennings, þar með talið vernd neytenda á fjármálamarkaði.

Í 5 gr. frumvarpsins er fjallað um laun og starfskjör bankastjóra og gert ráð fyrir að laun seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra taki breytingum þann 1. júlí ár hvert til samræmis við mat Hagstofu Íslands á hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið ár. Þá hafi ráðherra einnig heimild til að hækka laun þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Þetta verklag er til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um breytingar á lögum vegna brottfalls kjararáðs (413. mál á yfirstandandi þingi). ASÍ tók í umsögn sinni um það mál undir breytt fyrirkomulag við launaákvarðanir til framtíðar en telur fullnægjandi að hækka laun þann 1. júlí ár hvert og leggst alfarið gegn því að ráðherra hafi auk þess heimild til þess að hækka laun þann 1 janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ