Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um sameignarfélög, heildarlög

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra til laga um sameignarfélög. Alþýðusambandið styður efni þessa frumvarps en því er ætlað að staðfesta ákveðnar meginreglur sem gilt hafa um þetta félagsform og um leið er óvissu eytt sem skapast hefur um einstaka þætti þess.

Alþýðusambandið gerir þó athugasemd við það að ekki eru ráðgerðar breytingar á núverandi fyrirkomulagi á skráningu sameignarfélaga. Þannig verður sýslumönnum áfram falið það verkefni að taka við og skrá tilkynningar er varða þessi félög.

Að mati ASÍ eru engin rök fyrir því að annað fyrirkomulag gildi um skráningu þessara félaga en gildir um skráningu allra annarra félaga sem stunda atvinnurekstur hér á landi, sbr. fyrirtækjaskrá RSK.

Sú miðlæga skráning fyrirtækja sem þar fer fram fyrir landið allt, reglubundið eftirlit með því að upplýsingar um fyrirtæki, heiti þeirra og forsvarsmenn séu réttar á hverjum tíma sem og traust aðgengi almennings að þeim upplýsingum er til þess fallin að skapa traust í samfélaginu og viðskiptalífinu á þeim aðilum sem stunda atvinnurekstur í nafni fyrirtækja.

Með vísan til framanritaðs mælir ASÍ með því að skráning sameignarfélaga verði færð á ábyrgð fyrirtækjaskrár RSK.

 

Virðingarfyllst,

 Ingvar Sverrisson, hdl.

lögfræðideild ASÍ