Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um rannsóknarnefndir

Reykjavík 29.4 2016
Tilvísun: 201604-0035

Efni: Frumvarp til laga um rannsóknarnefndir, 653. mál

Alþýðusamband Íslands vekur athygli á því, að skv. 4-6.mgr. 2.gr. frumvarpsins er einungis gert ráð fyrir að staða opinberra starfsmanna, þá er þeir eru kvaddir eru til rannsóknarstarfa, sé varin gagnvart launagreiðanda og hvað varðar réttindi þeirra og réttarstöðu á vinnumarkaði. Mikill fjöldi hæfra einstaklinga, lögmanna og annarra er starfandi á almennum vinnumarkaði, innan fyrirtækja, hjá sjálfstæðum stofnunum og félagasamtökum. Brýnt er að Alþingi hafi val um nefndarmenn sem ekki séu í beinu ráðningarsambandi við hið opinbera og sem ekki eiga starfsframa sinn og velferð á vinnumarkaði undir framkvæmda- eða dómsvaldi, þeim hinu sömu og þeim kann að vera falið að rannsaka. ASÍ leggur til að frumvarpinu verði breytt í þessu tilliti og öðrum en opinberum starfsmönnum gert fært að taka sæti í rannsóknarnefnd eða vera einir í slíkri nefnd án þess að glata starfi og/eða réttindum á vinnumarkaði. Þetta á m.a. við rétt til launalauss leyfis og varðveislu og áframhaldandi ávinnslu réttinda sem tengjast starfstíma.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ