Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila

Reykjavík 05.05 2010

Mál: 201004-0042

 

Efni:  Umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila (570 mál).

Alþýðusamband Íslands er sammála þeirri meginhugsun sem í frumvarpinu felst um nauðsyn þess að stjórnvöld búi á hverjum tíma yfir bestu fáanlegu upplýsingum um fjárhagsstöðu almennings. Slíkar upplýsingar eru ekki einungis nauðsynlegar eftir að samfélag okkar verður fyrir áföllum heldur ætíð. Mikilvægt hefði t.d. verið að upplýsingar eins og þær sem fjallað er um í frumvarpinu hefðu verið til staðar þegar þær röngu ákvarðanir í húsnæðis- og skattamálum voru teknar sem miklu réðu um hrun fjármála- og efnahagskerfisins á árinu 2008.

ASÍ telur þess vegna að finna beri verkefnum þessum varanlega stað og að það verði fremur í höndum opinberrar stofnunar eins og Hagstofu Íslands að afla þeirra og vinna úr þeim en pólitísks ráðuneytis.

Áskilinn er réttur til þess að koma að frekari athugasemdum við þingmál þetta eftir því sem meðferð þess á Alþingi miðar.

 

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ