Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um ráðstafanir í skattamálum (virðisaukaskattur o.fl.)

Reykjavík, 21. apríl 2010

Tilvísun: 200912-0011

 

Efni: Frumvarp til laga um ráðstafanir í skattamálum (virðisaukaskattur o.fl.), mál nr. 239

Alþýðusamband Íslands stóð ásamt, BSRB, BHM ,KÍ, SSF, SA, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórninni að gerð Stöðugleikasáttmála síðastliðið sumar. Aðilar sáttmálans voru sammála um mikilvægi þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem allra fyrst. Slíkt yrði gert með aukinni tekjuöflun og samdrætti í útgjöldum.

Aðilar sáttmálans voru sammála um að hlutur tekjuöflunar í nauðsynlegum aðlögunaraðgerðum yrði ekki hærra hlutfall en 45% af heildaraðlöguninni yfir tímabilið 2009 til 2011. Það er mat Alþýðusambandsins að það reyni mjög á þetta hlutfall þegar á næsta ári.

Þegar unnið var að gerð Stöðugleikasáttmálans var gert ráð fyrir að aðlögunarþörf ríkisfjármála væri 3,9% af VLF á næsta ári. Við endurskoðun á sameiginlegri efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda í haust var aðlögunarþörf opinberra fjármála metin 5,5%. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir 6,9% aðlögun ríkisfjármála. Nefnt hefur verið að með þeim breytingum sem nú er stefnt að á tekjuhlið ríkisfjármálanna muni aðlögunin nema um 6,1% af VLF. Aðlögunin stefnir því í að vera 0,6% stigum meiri af VLF en sameiginleg efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS gerir ráð fyrir. Þessi munur jafngildir rúmum 8 milljörðum. Hluti skýringarinnar kann að liggja í því að annars vegar er verið að ræða um fjármál hins opinbera þ.e. ríkis og sveitarfélaga og hins vegar ríkisfjármál. Ekkert bendir þó til að afkoma sveitarfélaganna sé að versna það mikið að það kalli á svo aukna aðlögun hjá ríkinu. ASÍ telur mikilvægt að aðlögunarþörfin verði yfirfarin áður en skattafrumvörpin verða lögfest. Reynist svigrúm til að draga úr aðlögun ríkisfjármála fyrir árið 2010 verði það svigrúm notað til að draga úr áformuðum skattahækkunum á almenning.

Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs gerir Alþýðusamband Íslands ekki athugasemdir við frumvarpið.