Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.)

Reykjavík, 23.maí 2011

Tilvísun: 201105-0030

 

Efni: Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.), 824. mál.

Umrætt frumvarp er lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þann 5. maí sl. Frumvarpið tekur þó til fleiri atriða en snúa beint að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Alþýðusamband Íslands gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.

9. gr. – Sérstakur skattur á lífeyrissjóði

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir greiði sérstakan 0,0972% eignarskatt til fjármögnunar á 0,6% sérstakri vaxtaniðurgreiðslu til heimila á árunum 2011 og 2012. Jafnframt er í 15. gr. gert ráð fyrir sérstakri skattlagningu á fjármálafyrirtæki í sama tilgangi. Í greinagerð með frumvarpinu er vísað til þess samkomulags sem stjórnvöld gerðu við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði í tengslum við yfirlýsingu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna þann 3. desember 2010 þar sem segir í 5. tölulið:

Ríkisstjórnin mun í samstarfi við aðila þessarar yfirlýsingar leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni nýja tegund tímabundinnar vaxtaniðurgreiðslu. Um er að ræða niðurgreiðslu vaxta í gegnum vaxtabótakerfið. Niðurgreiðslan er almenn og óháð tekjum, en fellur niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin mörk. Reiknað er með að útgjöld vegna þessa úrræðis verði allt að 6 milljarðar króna á ári og verði í gildi árin 2011 og 2012.

Jafnframt segir í greinagerð frumvarpsins að fyrir liggi samkomulag þess efnis að heildargreiðslur þessara aðila í formi tímabundinnar skattlagningar verði 3,5 milljarður á þessu ári sem skiptist jafnt á milli þeirra, þ.e. 1.750 millj. á viðskiptabanka og 1.750 millj. á lífeyrissjóði. Ekkert slíkt samkomulag liggur hins vegar fyrir. Í viðræðum aðila í nóvember, þegar fallist var á fjármögnun hinnar sérstöku vaxtagreiðslu, var lögð á það áhersla að ekki yrði um skattlagningu að ræða heldur yrði leitað annarra leiða til fjármögnunar. Auk þessa eru viðskiptabankarnir langtum stærri lánveitendur íbúðalána en lífeyrissjóðirnir og því er eðlilegt að hlutur þeirra í fjármögnun aðgerðanna sé í samræmi við það.

Alþýðusamband Íslands leggst alfarið gegn því að lagður verði sérstakur eignarskattur á lífeyriseign landsmanna. Í reynd er hér um skattlagningu að ræða sem einungs hefur áhrif á lífeyrisréttindi launafólks á almennum vinnumarkaði og starfsfólk ríkis og sveitarfélaga sem eru félagsmenn í ASÍ félögum. Réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verða varin með sérstökum framlögum úr opinberum sjóðum. Verði þetta ákvæði að lögum er því enn verið að auka á þann mismun sem er á lífeyrisréttindum launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði. Niðurstaðan verður sú að það launafólk sem býr við lökust lífeyrisréttindi mun fjármagna vaxtaniðurgreiðsluna en það launafólk sem býr við betu lífeyriskjörin verður í reynd undanþegið því að taka þátt í þessum kostnaði.

16. gr. – Greiðsluskylda í VIRK starfsendurhæfingarsjóð

Í VI kafla yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 segir:

Almennt samkomulag er um mikilvægi uppbyggingar markvissrar starfsendurhæfingar svo stuðla megi að þátttöku og virkni á vinnumarkaði. Draga þarf markvisst úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði, meðal annars með því að bregðast við áður en fólk hverfur úr störfum sínum með virkri heilsuvernd á vinnustöðum, þ.á.m. forvörnum. Þýðingarmikið er að atvinnulífið í heild komi að þeirri uppbyggingu ásamt stjórnvöldum og lífeyrissjóðum, en þegar greiðir stór hluti launagreiðenda 0,13% iðgjald til Starfsendurhæfingarsjóðs á grundvelli kjarasamninga.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að lögfest verði skylda allra launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs. Enn fremur komi til jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðum.

Velferðarráðherra mun skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011 þar sem miðað verði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Útfæra þarf aðkomu ríkisvaldsins varðandi faglegar útfærslur og samspil starfsendurhæfingar tengdri vinnumarkaði og þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem gildi til 1. janúar 2012 sem kveður á um greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Þá skulu ráðherrar velferðar- og lífeyrismála skipa samráðshóp aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011.

Alþýðusambandið mótmælir því harðlega að lögbinda eigi greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða til Starfsendurhæfingarsjóðs tímabundið í nokkra mánuði með vísan til þess að fyrir 1. nóvember n.k. hafi verið lagðar fram tillögur að nýjum lagaramma fyrir starfsemina. ASÍ telur þetta fyrirkomulag í mikilli andstöðu við þær viðræður sem átt hafa sér stað milli aðila varðandi málefni Virk Starfsendurhæfingarsjóðs. Aðilar vinnumarkaðarins hafa í þrígang samið við stjórnvöld um lögleiðingu á fjármögnun til sjóðsins, við gerð kjarasamninga í febrúar 2008, í Stöðugleikasáttmálanum í júní 2009 og nú síðast við gerð kjarasamninga í maí 2011. Í þessum viðræðum hefur ávallt verið gengið út frá því að tryggja langtímafjármögnun sjóðsins og tryggja jafnframt aðkomu alls launafólks að þeim úrræðum sem sjóðurinn veitir. Engar viðræður hafa farið fram í þeim anda að um tímabundna greiðsluskyldu yrði að ræða. Í frumvarpinu nú er gert ráð fyrir því að ganga mun lengra í lagasetning en um var rætt og þeirri umræðu markaður afar þröngur tímarammi, bæði fyrir eiginlegt nefndarstarf sem og umfjöllun á Alþingi. Af þessum ástæðum krefst ASÍ þess að gildistími laganna verði til ársloka 2013 og að verkefni samráðshópsins verði tvískipt á þann hátt að fyrir 1. nóvember 2011 verði samráði á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um verkaskiptingu og kostnaðarskiptingu lokið en að niðurstaða samráðs um þörf fyrir nánari lagaramma um starfsemi Virk Starfsendurhæfingarsjóðs verði fyrir lok september 2013.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Henný Hinz

hagfræðingur