Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um póstþjónustu

Reykjavík: 16.11.2018
Tilvísun: 20180011-0017

Efni: Frumvarp til laga um póstþjónustu, 270. mál

Alþýðusamband Íslands gerði á árinu 2016 alvarlegar athugasemdir við starfsemi Íslandspóst vegna brota á gildandi lögum. Þau ágreiningsefni lutu m.a. að túlkun laganna og úr þeim ágreiningi er ekki leist með hinum nýju heildarlögum.
Ágreiningur aðila laut í fyrsta lagi að því hvernig fyrirtækið meðhöndlaði póstsendingar á lögheimili félagsmanna ASÍ. Ef viðkomandi félagsmaður var ekki skráður á póstkassa eða póstlúgu á lögheimili var pósturinn endursendur. Í öðru lagi laut hann að því að fyrirtækið notaði eigin gagnagrunn um heimili manna með öðrum upplýsingum en finna mátti í þjóðskrá, byggðan á upplýsingum starfsmanna sinna. Ef þeim ástæðum gerði fyrirtækið ekki tilraun til útburðar hundraða bréfa.
Það var og er álit ASÍ að með því hafi Íslandspóstur bæði brotið lög um póstþjónustu en einnig gerst sekt um að safna saman í gagnagrunn persónupplýsingum án heimildar Persónuverndar. Viðeigandi opinberar kærunefndir voru ekki sammála eða töldu deiluna ekki koma sér við.
Hér með eru þessar athugasemdir ASÍ ítrekaðar og lagt til að Alþingi hafi þær í huga þá er sett eru ný heildarlög. Megin ástæða þess að athugasemdir þessar voru settar fram á sínum tíma eru einfaldar og eftirfarandi.
Þúsundir útlendinga af EES svæðinu eiga hér lögheimili vegna starfa sem ýmist eru tímabundin eða til lengri tíma. Þá er þeir koma til landsins er algengt að lögheimili þeirra sé skráð á einhverja aðstöðu atvinnurekanda og jafnvel á heimili hans. Fólkið er síðan ýmist við störf í fastri starfsstöð eða vítt og breytt um landið. Oft er um að ræða tugi starfsmanna skráða með sama lögheimili. Í engu tilviki koma nöfn þeirra fram á póstlúgum eða póstkössum og fordæmi fyrir því að húsráðandi hirði ekki upp póst til þeirra og er hann þá endursendur og fær áritun „býr ekki hér“ eða eitthvað í þá áttina, jafnvel þannig áritað af húsráðanda. Íslandspóstur sem sjálfur heldur ólögmæta skrá í þessu efni tekur þá merkingu upp í flokkunarkerfi sitt og ef bréf berst á sama nafn er ekki gerð tilraun til útburðar og bréfið endursent sendanda. Í þessu felst ekki einasta ólögmætt skráarhald um einstaklinga í samkeppni við lögheimilaskrá Þjóðskrár og brot umráðamanna húsnæðis gegn lögum um lögheimili heldur einnig og ekki síður hitt að með þessum starfsaðferðum eru þúsundir EES borgara á Íslandi án póstþjónustu.

Hjálagt: Erindi ASÍ og úrskurðir vegna kæru.

Bréf til Íslandspósts
Kæra til úrskurðarnefndar
Ákvörðun nr. 18
PFS úrskurður


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ