Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun (1)

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, 731. mál.

Í frumvarpinu er lagt til að þrjár stofnanir – Iðntæknistofnun, Rannsóknar-stofnun byggingariðnaðarins og sá hluti Byggðastofnunar sem ekki fæst við fjármögnunarstarfsemi – verði sameinaðar í eina, Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Stofnunin heyri undir iðnaðarráðherra sem skipi henni forstjóra til fimm ára í senn. Forstjórinn fari aftur með stjórn stofnunarinnar og daglegan rekstur. Innan Nýsköpunarmiðstöðvar verði stundaðar tækni-rannsóknir svo og rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun. Þá verði innan hennar byggð upp þjónustumiðstöð. Nýsköpunarmiðstöðin hýsi jafnframt Byggðasjóð, Tryggingasjóð útflutnings og Tækniþróunarsjóð.

Athugasemdir ASÍ

·Sameining stofnana

ASÍ styður sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.

ASÍ leggst hins vegar eindregið gegn sameiningu ofannefndra rannsóknarstofnana við óskylda starfsemi eins og þá fjármálafyrirgreiðslu sem fram fór hjá Byggðastofnun. Hætt er við að hagsmunaárekstrar komi upp þegar innan sömu stofnunar er að finna tæknirannsóknir, samkeppnissjóð og sjóð sem á að sinna hagsmunum landsbyggðarinnar (Byggðasjóð).

·Stjórnskipulag

ASÍ er andsnúið þeirri miðstýringu á stjórnskipulagi Nýsköpunarmiðstöðvar sem felst í frumvarpinu (1.-3. gr.). Hingað til hefur atvinnulífið átt beina aðild að stjórn þeirra stofnana iðnaðarins sem fyrirhugað er að sameina. Nú færist vald yfir þeim í hendur iðnaðarráðherra /forstjóra. Óljóst er hvernig atvinnulífið getur haft áhrif á verkefnavalið í framtíðinni.


·Þjónustumiðstöð

ASÍ styður þær megináherslur sem koma fram í frumvarpinu er lúta að rekstri þjónustumiðstöðvar (4. gr.).

ASÍ vill þó vekja athygli á að í frumvarpinu er í raun fátt nýtt að finna um rekstur slíkrar miðstöðvar. Frumvarpið gerir reyndar ráð fyrir því að Impra-nýsköpunarmiðstöð (núverandi þjónustumiðstöð) heyri undir Nýsköpunarmiðstöð. Í þessu sambandi áréttar ASÍ gagnrýni sína á þá miðstýringu á stjórnskipulagi Nýsköpunarmiðstöðvar sem felst í frumvarpinu.

Að öðru leyti eru ákvæði um nýsköpunarmiðstöð í núgildandi lögum um opinberan stuðning við tækniþróun (lög nr. 4/2003) færð lítt breytt inn í frumvarpið. Skynsamlegt væri að nota tækifærið nú til að styrkja þessi ákvæði, t.d. með því að auka sjálfstæði þjónustumiðstöðvarinnar og höfða til samstarfs við fleiri aðila. Samhliða þessu gæti verið gagnlegt að marka stefnu um hvaða verkefni einkaaðilar geta annast og eðlilegt væri að bjóða út.

·Opinberar rannsóknir

ASÍ telur að ganga eigi mun lengra í að sameina skyldar opinberar rannsóknarstofnanir heldur en lagt er til í frumvarpinu, t.d. með því að sameina fleiri rannsóknarstofnanir á sviði iðnaðar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis. Rétt er að vekja athygli á að í þeirri grein frumvarpsins sem fjallar um rannsóknir (5. gr.) er aðallega fjallað um tæknirannsóknir. Flétta hefði mátt inn í þessa grein ákvæði um rannsóknir á atvinnuþróun.

·Fjármögnunarstarfsemi

ASÍ leggst gegn öllum ákvæðum frumvarpsins sem fjalla um breytingar á fjármögnunarsjóðum (6.-17. gr.). Hæpið er að þörf sé á að halda úti sérstökum sjóði til að sinna atvinnuþróun landsbyggðarinnar (Byggðasjóði). Eðlilegra hefði verið að allar eignir fjármögnunarhluta Byggðastofnunar rynnu inn í Nýsköpunarsjóð. Þá eru engin augljós rök fyrir þeim tilfærslum á hýsingu Tryggingasjóðs útflutnings og Tækniþróunarsjóðs sem lagðar eru til.

·Aðrir liðir /staðsetning

Undir liðnum „Önnur ákvæði“ er iðnaðarráðherra falið vald til að ákveða staðsetningu Nýsköpunarmiðstöðvar. Nú liggur fyrir ákvörðun hans um að staðsetja höfuðstöðvarnar á Sauðárkróki. Það er afleitt að höfuðstöðvar rannsóknarstofnana, þjónustufyrirtækja og fjármögnunarsjóða, sem eru með meginstarfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu, sé flutt á brott með þessum hætti. Þetta er dæmi um þau óheillavænlegu áhrif sem of mikil miðstýring opinberra aðila á Nýsköpunarmiðstöð getur haft. Eðlilegra væri að sjálfstæð stjórn skipuð fulltrúum atvinnulífsins tæki ákvörðun um staðsetningu höfuðstöðvanna.


Samantekt

Þrátt fyrir að í frumvarpinu sé eitt og annað sem til framfara horfir, sérstaklega sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, þá eru vankantarnir of margir. Alþýðusamband Íslands leggst því eindregið gegn því að frumvarp það sem hér er til umsagnar verði samþykkt í þeirri mynd sem það er í dag.

 

F. h. Alþýðusambands Íslands,

Stefán Úlfarsson

Hagdeild ASÍ