Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um opinber innkaup

Í frumvarpinu er m.a. fjallað um hæfi þátttakenda og bjóðenda í opinberum innkaupum og sett ýmis skilyrði sem ætlað er að tryggja góða framkvæmd opinberra innkaupa, m.a. með því að vinna gegn kennitöluflakki, gerviverktöku og treysta stöðu og réttindi launafólks.

Ljóst er að frumvarpið tekur ekki nægjanlegt tillit til tillagna Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 20. júní sl. hvað þessi skilyrði varðar – tillagna sem ríkisstjórnin tók undir í yfirlýsingu í tengslum við endurskoðun kjarasamninga 22. júní sl.:

„Ríkisstjórnin lýsir sig jafnframt reiðubúna til að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um átak gegn svartri atvinnustarfsemi. Megináhersla verður lögð á átak gegn hvers kyns gerviverktöku, t.d. í byggingariðnaði, þjónustutengdri mannvirkjagerð og veitingastarfsemi, aukið eftirlit með starfsemi og skattskilum erlendra þjónustuveitenda og starfsmanna þeirra og átak á sviði útboðsmála sem miði að því að koma í veg fyrir undirboð sem byggi á svonefndu kennitöluflakki eða á því að starfskjör starfsmanna viðkomandi verktaka uppfylli ekki íslensk lög og kjarasamninga. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að fyrirliggjandi tillögur aðila vinnumarkaðarins um þessi efni verði hafðar til hliðsjónar við endurskoðun laga og reglugerða og að fjármögnun verði tryggð.“

Frumvarpið eins og það liggur nú fyrir tekur aðeins að hluta mið af þessari yfirlýsingu. Það er miður að mikilvæg ákvæði laganna eru ekki bindandi fyrir sveitarfélögin þegar samningar eru undir viðmiðunarfjárhæðum EES. Má þar nefna:

47. gr. um persónulegar aðstæður bjóðanda, s.s. útilokun þess sem sakfelldur hefur verið fyrir tiltekin alvarleg afbrot.

49. gr. um fjárhagsstöðu bjóðanda þar sem gerð er sú krafa að fjárhagsstaða fyrirtækis skuli vera trygg þannig að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda.

73. gr. um óeðlilega lág tilboð þar sem gerðar eru kröfur til kaupanda að hann óski skriflegra upplýsinga um grundvöll tilboðs, svo sem að tilboðið sé í samræmi við reglur um réttindi launþega og vinnuvernd.

77. gr. um að verktaka og undirverktaka sé óheimilt að gera samninga um gerviverktöku, þ.e. undirverktöku launamanna.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins komu á framfæri ábendingum um þetta við fjármálaráðuneytið við endanlega gerð frumvarpsins en ráðuneytið taldi sér ekki fært að taka tillit til þeirra nema með samþykki sveitarfélaganna. Ráðuneytið kallaði hins vegar ekki eftir afstöðu sveitarfélaga til þessara ábendinga. Benda má á að hér er um að ræða ákvæði sem ekki eru íþyngjandi fyrir sveitarfélögin og í raun sjálfsagðar leikreglur í opinberum innkaupum, óháð fjárhæð þeirra eða hvort í hlut á ríkið eða sveitarfélag.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusamband Íslands áherslu á að við umfjöllun um frumvarpið verði tekið tillit til ábendinga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og telur fullvíst að slíkt megi gera í fullu samráði við samtök sveitarfélaganna.

 

F. h. Alþýðusambands Íslands,

Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ