Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um opinber fjármál

Reykjavík, 03.03.2015
Tilvísun: 201501-0013

Efni: Frumvarp til laga um opinber fjármál, 206. mál
Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um opinber fjármál. Með lögunum er stefnt að heildstæðri löggjöf um opinber fjármál með það að markmiði að styrkja stjórn opinberra fjármála. Á þessu hefur verið veruleg þörf hér á landi, en stjórn opinberra fjármála hefur ekki verið til þess að stuðla stöðugleika hér á landi.

Í frumvarpinu birtist margt til bóta á núverandi fyrirkomulagi en þar birtast bæði metnaðarfull markmið um opinber fjármál, auk þess sem umgjörðin er líkleg til að draga úr óvissu og auka aga og fyrirsjáanleika við stjórn ríkisfjármála. Þarna má vísa til þess sem birtist í 4. gr. og 5. gr. með mótum fjármálastefnu og árlegrar fjármálaáætlunar.
Í 7. gr. birtast markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar um afkomu. Annars vegar að hámark heildarskulda að frátöldum lífeyrisskuldbindingum, viðskiptaskuldum að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum sé lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu. Hinsvegar um að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Alþýðusambandið vill þó benda á mikilvægi opinberra fjármála við áföll á efnahagslífið og því mikilvægi þess að víkja frá markmiðum við slíkar aðstæður. Í því samhengi kann að vera rétt að endurskoða ákvæði í 10.gr. um að víkja megi frá skilyrðum í allt að tvö ár. Sá tími kynni að vera of skammur.

Varðandi 50. gr. frumvarpsins þá er þar gert ráð fyrir að tekjur A-hluta ríkissjóðs komi til með að vera skilgreindar og flokkaðar samkvæmt hinum alþjóðlega GFS-staðli. GFS gerir hinsvegar greinarmun á milli skatta og framlaga sem eru ígildi iðgjalda t.d. atvinnutryggingagjald, gjald til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, fæðingarorlofsgjald, ábyrgðargjald vegna tryggingar krafna vegna gjaldþrota vinnuveitenda, gjald til starfsendurhæfingarsjóða, markaðsgjald og iðgjald vegna slysatryggingar sjómanna.
Alþýðusambandið gerir hinsvegar verulega athugasemd ef ætlunin er að láta slík iðgjöld renna beint í ríkissjóð en með því væri horfið frá því fyrirkomulagi að markaðir tekjustofnar standi undir skilgreindri þjónustu. Gangi þetta eftir verður m.a. grundvallar breyting á ráðstöfun tryggingargjalds og öðrum mörkuðum tekjustofnum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um og eru ígildi iðgjalda.
Slík gjöld eru ólík öðrum mörkuðum tekjustofnum ríkisins þar sem þau eru hluti af þríhliða samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins og er þeim ætlað að standa undir fjármögnun ákveðinna réttinda á vinnumarkaði.

Verði frumvarpið að lögum án þess að gerð verði breyting á 50. gr. þess er ríkisvaldið í raun að segja frá því fyrirkomulagi sem verið hefur á vinnumarkaði og byggt hefur á þríhliða samskiptum verkalýðshreyfingar, stjórnvalda og atvinnurekenda. Slík breyting getur grafið undan friði á vinnumarkaði.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Róbert Farestveit
Hagfræðingur