Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald ofl.

Efni: Frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald ofl., 794. mál

Málið er í þremur þingskjölum, 1213, 1250 og 1270. Gerð er grein til afstöðu Alþýðusambands Íslands til einstakra þingskjala hér á eftir.

Um þingskjal 1213.

Frumvarpið snýr að þremur atriðum;

1.Að framlengja tímabundna lækkun olíugjalds um 4 kr. frá 1. júlí 2006 til 31. desember 2006 til að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu samanborið við þróun heimsmarkaðsverðs á bensíni.

2.Að breyta sambærilegum ákvæðum varðandi sérstakt kílómetragjald til samræmis við tímabundna lækkun olíugjaldsins.

3.Að heimila björgunarsveitum að nota litaða gjaldfrjálsa olíu á ökutæki sín en greiða þess í stað sérstakt kílómetragjald.

Alþýðusamband Íslands er sammála framangreindum breytingum og mælir með því með samþykkt frumvarpsins.

Um þingskjal 1250

Breytingartillagan snýr að því að 4,5% af innheimtum tekjum af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi renni til að efla almenningssamgöngur og til að auka hlut vistvænna orkugjafa í samgöngum. Ekki er að finna í frumvarpinu neina útfærslu á því hvernig þessum fjármunum skuli varið né heldur hvernig mæta skuli samdrætti á fjárframlögum til Vegagerðarinnar. ASÍ mælir því ekki með samþykkt þessarar breytingartillögu.

Um þingskjal 1270

Breytingartillagan snýr að því að lækka olíu- og bensíngjald tímabundið um 6 kr. frá því sem það er í dag, í þeim tilgangi að hafa tímabundin áhrif á vísitölu neysluverðs og slá þannig á vaxandi verðbólgu.

Alþýðusamband Íslands hefur miklar áhyggjur af vaxandi verðbólgu og telur brýnt að stjórnvöld bregðist við með ábyrgari stjórn á ríkisfjármálunum. Tímabundin lækkun á olíu- og bensíngjaldi dugar ekki ein og sér til að slá á þann vanda sem blasir við. Samhliða slíkum aðgerðum er nauðsynlegt að grípa til aðgerða á sviði ríkisfjármála sem draga úr vaxandi verðbólgu.

 

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

 Ólafur Darri Andrason