Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um náttúrupassa

Reykjavík, 18.02 2015
Tilvísun: 201502-0006

Efni: Frumvarp til laga um náttúrupassa, 455. mál
Náttúrupassa er ætlað að afla tekna í ríkissjóð sem ætlunin er að ráðstafa í uppbyggingu og verndun ferðamannastaða auk eflingar öryggis ferðamanna. Það er flestum ljóst að hröð fjölgun ferðamanna hér á landi undanfarin ár hefur verið án hliðstæðu og orðið til þess að auka ágang um viðkvæm svæði í íslenskri náttúru. Alþýðusambandið tekur undir þau sjónarmið og mikilvægi þess að fjárfesta í uppbyggingu ferðamannastaða. ASÍ hefur lagt áherslu á mikilvægi sterkra innviða í atvinnu- og byggðaþróun, t.d. samgangna, fjarskipta og orkuflutnings.

Við öflun tekna til fyrrgreindrar uppbyggingar eru nokkrar leiðir færar, hver með sína kosti og galla, en auk náttúrupassa hafa komugjöld og gistináttaskattur helst verið nefnd. ASÍ leggur áherslu á að slík gjaldheimta þurfi að vera einföld, skilvirk og á breiðum grunni en um leið að um hana ríki víðtæk sátt.

Það er mat ASÍ að náttúrupassi sé síst af þeim leiðum sem færar eru. Í fyrsta lagi er náttúrupassinn viðsnúningur frá almannaréttinum, þ.e.a.s. því að mönnum sé heimilt að fara um og njóta náttúru Íslands án þess að greiða fyrir það gjald. Í öðru lagi er náttúrupassinn nýtt gjald, og bætist því við, og flækir núverandi gjaldtöku ferðamanna. Í þriðja lagi þarfnast náttúrupassinn fjárfestingar í yfirbyggingu, kynningu og markaðssetningu en ekki síður fjármuna til reksturs þess eftirlits sem nauðsynlegt er til að ferðamenn framfylgi lögunum. Slíkt eftirlit gæti reynst bæði flókið og kostnaðarsamt og eftir því sem það er aukið, þeim mun meir skerðir það upplifun ferðamanna.

ASÍ telur að gistináttaskattur, komugjöld eða blönduð leið beggja sé heppilegri, einfaldari og skilvirkari leið til að ná framangreindum markmiðum. Þó ber að hafa í huga að komugjöld myndu hafa áhrif til hækkunar á verði á flugi innanlands.

Sú hætta er fyrir hendi að án víðtækrar sáttar um gjaldheimtu verði til brotakennt, tvöfalt kerfi þar sem hluti fellur undir náttúrupassa og hluti innheimtir sjálfstætt gjald. Í slíku kerfi er hætta á því að gjaldheimtan rýri upplifun ferðamanna sem hefði neikvæð áhrif á atvinnugreinina til lengri tíma litið.

F.h. ASÍ
Róbert Farestveit
hagfræðingur