Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um námslán og námsstyrki

Reykjavík, ágúst 2016
Tilvísun: 201608-0027

 

Efni: Frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, 794. mál

Um alllangt skeið hefur verið unnið að endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna (21/1992).  Hér er um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir þá einstaklinga sem málið varðar, atvinnulífið og samfélagið allt. Hlutverk sjóðsins er að gefa námsmönnum tækifæri til að mennta sig án tillits til efnahags og skila til samfélagsins vel menntuðum einstaklingum.  Alþýðusambandið telur að þær breytingar sem lagðar eru til á fyrirkomulagi námsaðstoðar í frumvarpinu, bæði er varðar námslengd, námsstuðning og endurgreiðslubyrði séu á heildina til þess fallnar að draga úr jöfnuði og jafnrétti til náms. Þá styðji breytingarnar ekki nægilega  við þá sem stunda iðn- og verknám en mikil þörf er á að fjölga nemendum í þeim greinum. 

Með það í huga vill Alþýðusamband Íslands gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.

Námsstyrkur

  • Hver og einn nemandi fær 65.000 kr. á mánuði, 9 mánuði ársins í námsstyrk óháð stöðu, þó að hámarki í 45 mánuði (5 ár). Námsmaður getur tekið lán sem nemur mismuninum á framfærslugrunni LÍN og styrkupphæðinni.

Að mati Alþýðusambandsins er jákvætt að innleiða námsstyrki, en sú leið sem farin er að greiða öllum hópum sömu upphæð í námsstyrk og hækka á sama tíma vexti, afnema tekjutengingu og takmarka lánstíma, dregur verulega úr jöfnunaráhrifum námslánakerfisins.  Að hafa styrkupphæðina þá sömu óháð framfærslubyrði og félagslegri stöðu leiðir til þess að lántökuþörf þeirra sem hafa mikla framfærslu lækkar hlutfallslega mun minna en þeirra sem hafa litla framfærslubyrði. Þar af leiðir að afnám tekjutengingar á endurgreiðslum, hækkun vaxta og takmörkun á endurgreiðslutíma mun þyngja verulega endurgreiðslubyrði þeirra sem hafa mesta námslánaþörf, nema hjá tekjuhærri einstaklingum.  

Mynd 1

Eins og sjá má á mynd 1 er námsstyrkurinn hærra hlutfall af framfærsluþörf eftir því sem framfærslubyrði er minni. Þetta endurspeglast svo í samanburði höfuðstóls námslána að námi loknu.  Sem dæmi sýnir mynd 2 samanburð á stöðu höfuðstóls við fyrstu afborgun í núverandi kerfi og í nýju kerfi eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Við útreikning lánsins var gert ráð fyrir að námsmaður tæki fullt lán fyrir þriggja ára námi. Lánsfjárhæð miðast við það sem úthlutunarreglur skólaársins 2016-2017 gerir ráð fyrir, nema í nýja kerfinu er styrkurinn dreginn frá og vextir hærri (2,5% auk þess sem gert var ráð fyrir 0,5% auka álagi)

 

Mynd 2

Samanburðurinn leiðir í ljós að einhleypir og barnlausir hagnast hlutfallslega mest á breytingunni. Fyrir einhleypan námsmann sem býr í foreldrahúsum er höfuðstóll námsláns við lok náms í nýju kerfi ríflega 80% lægri en í því gamla þar sem styrkupphæðin er hlutfallslega há í samanburði við framfærslu. Minnstu munar á höfuðstólnum við lok námstímans í nýja og gamla kerfinu hjá einstæðum foreldrum, eða um 20%, enda er styrkurinn mun minni hluti framfærsluþarfar þess hóps.  

Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu að greiða námsstyrk sem hlutfall af námsframvindu umfram 22 ETCS einingar og takmarka tímalengdina við 45 mánuði, takmarkar styrkveitingar til þeirra sem ekki hafa tök á að stunda fullt nám þar sem þeim er ekki gert kleift að dreifa styrkveitingunni yfir lengra tímabil.  Auk þess eru þær takmarkanir að hafa hámarkið aðeins 45 mánuði, til þess fallnar að t.a.m. námsmaður sem nýtt hefur námsstyrkinn til sveinsprófs (sem að jafnaði er þrjú ár), fer svo eitt ár í aðfararnám og þaðan í háskóla, hefur aðeins möguleika á styrk í eitt ár í háskólanámi. Hann mun fullnýta styrkinn áður en hann lýkur námi og þurfa að taka fullt lán. 

 Endurgreiðslur

  • Hætt verður að tekjutengja endurgreiðslur námslána líkt og nú er. Þess í stað er fer endurgreiðslutíminn eftir aldri námsmanns, nú er gert ráð fyrir að námslán sé greitt upp fyrir 67 ára aldur en uppgreiðslutíminn getur að hámarki orðið 40 ár.  Endurgreiðslur námslána hefjast einu ári eftir að námi lýkur í stað tveggja ára í núgildandi kerfi. Nýbreytni er að lánsfjárhæð lækkar um 10% á ári eftir 50 ára aldur, og lánsréttur fellur þannig niður við 60 ára aldur.

Ljóst er að hingað til hafa félagsleg sjónarmið ráðið því fyrirkomulagi sem verið hefur á endurgreiðslu námslána, þar sem miðað hefur verið við að endurgreiðslurnar séu ekki verulega íþyngjandi fyrir viðkomandi.  Við endurgreiðslur lána í nýju frumvarpi, er mikil breyting frá núverandi kerfi.  Byrja þarf að greiða af lánum einu ári eftir námslok, greitt verður mánaðarlega og samhliða öðrum lánum sem þegar hafa verið tekin hjá LÍN.  Miðað er við höfuðstól lánsins óháð tekjum eins og verið hefur og einnig fjölda endurgreiðslu ára og aldurs. Áfram er gert ráð fyrir að námslánin séu eftirágreidd. Nemendur á fyrstu námsönn eru undir það seldir að taka bankalán eða útvega sér framfærslu með öðrum hætti. Í þessu felst ljóslega aukakostnaður (fyrir námsmanninn og kerfið í heild), auk þess sem fjárhagsaðstæður viðkomandi geta hamlað því að hann geti skapað sér framfærslu (þ.m. fengið lán hjá lánastofnun).  Skiptir þar ekki öllu að greiða á vaxtastyrki. Fyrir liggur að framangreindar kröfur hafa skapað fjölmörgum vanda síðustu misseri vegna aðstæðna mikils fjölda einstaklinga, bæði lántakenda og mögulegra ábyrgðarmanna, í framhaldi af hruninu. Mikilvægt er að þessar staðreyndir verði hafðar í huga við setningu laganna nú. Að öðrum kosti kunna framangreind skilyrði að leiða til alvarlegrar mismununar á grundvelli efnahags. Leggur ASÍ áherslu á að teknar verði upp samtímagreiðslur. Myndir 3 og 4 sýna samanburð á afborgunum láns vegna þriggja ára náms. Sýnd eru mismunandi dæmi eftir hjúskaparstöðu, og fjölda barna, þ.e. þær breytur sem ákvarða upphæð lánsins og svo aldri þegar námi lýkur en það er sú stærð sem hefur áhrif á afborgunartímabil og þar með fjárhæð mánaðarlegra afborgana.

 

Mynd 3

Mynd 4

Mánaðarlegar afborganir yrðu lægstar ef námsmaður er undir 27 ára aldri þegar námi lýkur og getur fullnýtt sér réttinn til þess að borga niður lánið á 40 árum. Afborganirnar hækka svo eftir því sem námsmaður er eldri þegar námi lauk. Þar sem engin tekjutenging er á lánunum er greiðslubyrði hærri eftir því sem höfuðstóll/framfærslubyrði námsmanns er hærri. Þannig er mánaðarleg afborgun einstæðs foreldris með tvö börn um 32.000 krónur á mánuði við upphaf afborgana ef viðkomandi er yngri en 27 ára þegar endurgreiðsla hefst, en um 15.500 hjá barnlausum einstaklingi.  Sé námsmaður 40 ára þegar endurgreiðsla hefst er mánaðarleg greiðslubyrði hjá einstæðu foreldri með tvö börn tæplega 39.000 á mánuði samanborið við t.a.m. um 19.000 hjá barnlausum einstaklingi.

Greiðslubyrði námslána er í dag tekjutengd, þannig að greitt er 3,75% af tekjum ársins, þó aldrei lægra en föst greiðsla sem var um 127.000 krónur á árinu 2016. Til að bera saman greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum í nýju og núverandi námslánakerfi má skoða hversu háar tekjur námsmaður þarf að hafa til þess að greiðslubyrði í nýja námslánakerfinu sé sambærileg og í núverandi kerfi – þ.e. 3,75% af tekjum ársins. Á myndum 5 og 6 má sjá hvaða einstaklingur þarf að hafa í laun til að greiðslubyrði í nýju kerfi sé óbreytt hlutfall tekna m.v. að tekið sé fullt námslán fyrir 3 ára nám. Sé námsmaður yngri en 27 ár þegar endurgreiðsla hefst (mynd 5) þarf einstætt foreldri með tvö börn t.a.m. að hafa ríflega 848.000 krónur á mánuði til þess að greiðslubyrði sé ekki meiri en 3,75% af tekjum líkt og í núverandi kerfi. Séu tekjurnar lægri verður greiðslubyrðin hlutfallslega þyngri.

Mynd 5

Mynd 6

Ef skoðuð er endurgreiðslubyrði sem hlutfall af launum fyrir námsmann sem tekur fullt námslán í þrjú ár og hefur endurgreiðslu fyrir 27 ára aldur (tafla 1) annarsvegar og sá sem hefur endurgreiðslu fyrir 40 ára aldur (tafla 2), má sjá eftirfarandi niðurstöður.

 

Mánaðarlaun

Einhleypur í foreldrahúsum

Einhleypur barnlaus

Einhleypur - 1 barn

Einhleypur - 2 börn

Sambúð - 1 barn

Sambúð - 2 börn

                                 400.000    

0,5%

3,9%

6,6%

8,0%

4,5%

5,7%

                                 500.000    

0,4%

3,1%

5,2%

6,4%

3,6%

4,6%

                                 600.000    

0,3%

2,6%

4,4%

5,3%

3,0%

3,8%

                                 700.000    

0,3%

2,2%

3,7%

4,5%

2,6%

3,3%

                                 800.000    

0,3%

1,9%

3,3%

4,0%

2,2%

2,9%

Tafla 1:

 

Mánaðarlaun

Einhleypur í foreldrahúsum

Einhleypur barnlaus

Einhleypur - 1 barn

Einhleypur - 2 börn

Sambúð - 1 barn

Sambúð - 2 börn

                                 400.000    

0,6%

4,7%

8,0%

9,7%

5,5%

6,9%

                                 500.000    

0,5%

3,8%

6,4%

7,8%

4,4%

5,6%

                                 600.000    

0,4%

3,1%

5,3%

6,5%

3,6%

4,6%

                                 700.000    

0,4%

2,7%

4,6%

5,5%

3,1%

4,0%

                                 800.000    

0,3%

2,4%

4,0%

4,8%

2,7%

3,5%

Tafla 2:

 

Glöggt má sjá að endurgreiðslubyrði (sem hlutfall af launum) þeirra sem eru einhleypir hækkar umtalsvert. Einnig er staða fólks í sambúð með tvö börn afleit. Það er alveg ljóst að staða þeirra sem hefja nám eftir hlé versnar umtalsvert. Þeir sem útskrifast af verk- og iðnnámsbrautum eru að meðaltali 27 ára og því að jafnaði eldri þegar þeir hefja háskólanám.  Það segir sig sjálft að þeim er gert erfiðara fyrir skv. tillögum frumvarpsins, þar sem búið er að afnema tekjutengingu, setja hámarksárafjölda á lánin og því verður greiðslubyrðin hærri eftir því sem fólk er eldra sem hefur nám. Ljóst er að með afnámi tekjutengingar aukast líkur á því að lánþegar geti lent í greiðsluerfiðleikum, auk þess sem búast má við að það hafi áhrif á námsval. Þarna er ekki um jöfnuð að ræða og alls ekki tekið tillit til þeirra sem eru á vinnumarkaði og hafa verið lengi og vilja snúa aftur í nám.  Tryggja verður jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags og að horft verði m.a. til fjölskyldustærðar, búsetu og annarra félagslegra þátta. 

Vextir og álag

  • Vextir námslána hækka úr 1% í 2,5% að viðbættu álagi sem er ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs og jafngildir væntum afföllum af endurgreiðslu. Vextir reiknast frá fyrstu útborgun láns í nýju kerfi ólíkt því sem nú er þegar engir vextir reiknast fyrr en skuldabréfi er lokað að námi loknu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að álag til að mæta afskriftarþörf lánasjóðsins skuli ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs. Ekki er gert ráð fyrir neinu hámarki á það álag og lántökum þannig ætlað að bera að fullu áhættuna af afföllum sjóðsins. Eins og rakið er hér að framan mun þessi breyting bitna harðast á þeim hópum sem hafa hvað mesta þörf fyrir námsaðstoð og hafa þyngsta framfærslu.

Stjórn

Í 21. grein frumvarpsins er fjallað um skipun stjórnar og verkefni. Það er eindregin skoðun ASÍ að eðlilegt sé að aðilar stærstu samtaka vinnumarkaðarins eigi fulla aðild bæði að lánshæfismatsnefnd og stjórn LÍN, enda ljóst að samkvæmt frumvarpinu er bæði nefndinni og stjórninni færð mikil völd um útfærslu og framkvæmd laganna.

Að lokum

Að mati Alþýðusambands Íslands er mikilvægt að nýta það tækifæri sem nú gefst með endurskoðun laganna um Lánasjóð íslenskra námsmanna til að mæta þeim kröfum um breyttar áherslur sem settar hafa verið fram á síðustu árum.  Miklu varðar að hér takist vel til og að lögin í endanlegum búningi endurspegli framsækna menntastefnu og sýn á það hvernig nýta má námslána- og námsstyrkjakerfið til að auka jafnrétti til náms og stuðla að auknu menntunarstigi þjóðarinnar.

Virðingarfyllst
Eyrún Valsdóttir,
deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ

Forsendur útreikninga í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki 794. mál

Við útreikninga var gert ráð fyrir að:

  • Námsmaður tæki fullt lán fyrir þriggja ára námi.
  • Lánsfjárhæð miðast við úthlutunarreglur/framfærsluviðmiðum LÍN fyrir skólaárið 2016-2017.
  • Í nýju kerfi er styrkupphæðin dregin frá framfærsluviðmiðum LÍN og lánsfjárhæð miðuð við það.
  • Í núverandi kerfi er m.v. gildandi vaxtakjör námslána, 1% en í nýju kerfi við 3% vexti (2,5%+ 0,5% álag).
  • Námslán í núverandi kerfi bera vexti frá því skuldabréfi er lokað að námi loknu en í nýju kerfi bera lánin vexti frá útborgunardegi láns.
  • Í öllum tilvikum eru námslán verðtryggð skv. vísitölu neysluverðs. Í öllum útreikningum er miðað við 2,5% verðbólgu á ársgrundvelli allan lánstímann.

Áhrif á vaxta- barna- og húsaleigubætur: Námslán teljast ekki til tekna við ákvörðun þessara bóta í dag og því hefur breyting á lánsfjárhæð ekki áhrif á útreikning þeirra. Ef námsstyrkur mun teljast til skattskyldra tekna og hefur áhrif til skerðingar á húsnæðisstuðningi og barnabótum mun það skerða ráðstöfunartekjur námsmanna sem því nemur.