Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara

Reykjavík: 12.05.2015
Tilvísun: 201506-0006


Efni: Frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara, 647. mál

Alþýðusamband Íslands veitti umsögn í málinu er það var lagt fram á síðastliðnu löggjafarþingi, nánar tiltekið sem 12. mál. Umsögn sú, sem er hér eftirfarandi, er hér með ítrekuð:

Upplýsingabylting undanfarinna ára hefur leitt til þess að almenningur hér á landi og erlendis, hefur fengið nauðsynlega vitneskju um grófa misbeitingu valds ákveðinna ríkja, þá sérstaklega hvað varðar persónunjósnir. Í því samhengi er vert að nefna sérstaklega mál Chelsea Manning og Edward Snowden í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Sagan kennir okkur og ofangreind dæmi sýna að ríki hafa því miður tilhneigingu til misbeitingar valds og jafnvel að snúast gegn borgurum sínum. Því felur frumvarp þetta í sér nauðsynlegan varnagla sem þó vonandi þarf ekki að notast.

Alþýðusamband Íslands telur að það eigi enginn að fara í fangelsi fyrir að segja sannleikann enda sé það lýðræðinu og borgurum alltaf til góða að hafa miklar og réttar upplýsingar. Alþýðusamband Íslands styður því í megindráttum frumvarpið og telur það fela í sér nauðsynlega réttarbót fyrir samfélagið í heild sinni sem og að sjálfsögðu fyrir starfsfólk hins opinbera.


Virðingarfyllst f.h. ASÍ,
Halldór Oddsson hdl.
lögfræðingur hjá ASÍ