Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Efni: Frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 801. mál

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fagnar því að með breyttum lögum er lögð áhersla á að gæta réttinda og starfsöryggis kennara, auka flæði milli skólastiga, fjölga tækifærum til starfsþróunar og auka fjölbreytileika og gæði í menntakerfinu. Við fögnum því sérstaklega að eitt af markmiðunum sé að koma í veg fyrir ófullnægjandi starfsöryggi þeirra sem starfa sem leiðbeinendur.

Í leikskólum landsins starfa margir leikskólaliðar sem búa yfir mikilli reynslu, jafnvel áratuga, sem mikilvægt er að meta og virða. Mikilvægt er að gæta starfsöryggis allra er starfa innan leikskólanna, ekki einungis þeirra sem lokið hafa 5 ára kennaranámi. Þá þarf einnig að tryggja möguleika allra til starfsþróunar, auka hæfni til að uppfylla markmið um að menntun og hæfni samræmist störfum og ábyrgð, sem er samfélaginu til framdráttar.

ASÍ vill benda á eftirfarandi:

Í 18. gr. Undanþáguheimild í frumvarpinu er fjallað um lausráðningu. Þar segir í 1. málsgrein:
Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við leikskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er kennari. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið kennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar. Ákvörðun um ráðningu á grundvelli þessarar málsgreinar er í höndum sveitarstjórnar eða rekstraraðila í tilvikum sjálfstætt rekinna leikskóla.

Í núgildandi lögum 87/2008, segir um undanþágur:

VI. kafli. Undanþágur.
17. gr. Undanþáguheimild fyrir leikskóla.
Sæki enginn leikskólakennari um auglýst leikskólakennarastarf, leikskólastjórastarf eða aðstoðarleikskólastjórastarf, sbr. 2. mgr. 9. gr., þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hið sama gildir ef umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem nauðsynleg teljast til þess að fá ráðningu í starf. Nú hefur starf starfsmanns verið auglýst í tvígang án þess að leikskólakennari hafi fengist og er þá heimilt að ráða hann í starfið samkvæmt nánari fyrirmælum sveitarstjórnarlaga og hlutaðeigandi kjarasamnings. Starfsmaður sem ráðinn er vegna framangreindra aðstæðna má ekki bera starfsheitið leikskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.

Þá segir jafnframt í 1. málsgrein, 5. gr. laga (139/2003) um tímabundna ráðningu starfsmanna 139/2003:

5. gr. Framlenging eða endurnýjun tímabundinnar ráðningar.
Óheimilt er að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár nema annað sé tekið fram í lögum. Þó er heimilt að endurnýja tímabundinn ráðningarsamning stjórnanda, sem gerður hefur verið til fjögurra ára eða lengri tíma, í jafnlangan tíma hverju sinni. Vinnuveitandi skal þó ávallt leitast við að ráða starfsmann ótímabundið.

Búið er að taka út úr nýju frumvarpi, ákvæðið um að einungis sé heimilt að auglýsa í tvígang og því ljóst að með þessari breytingu er verið að ógna starfsöryggi þeirra sem ekki hafa kennaramenntun og leyfisbréf. Þá er þáttur kjarasamninga ekki lengur fyrir hendi í nýju frumvarpi, en með því ákvæði er traustari grunnur lagður að gildi kjarasamninga.

ASÍ fer fram á að ákvæðið: „Nú hefur starf starfsmanns verið auglýst í tvígang án þess að leikskólakennari hafi fengist og er þá heimilt að ráða hann í starfið samkvæmt nánari fyrirmælum sveitarstjórnarlaga og hlutaðeigandi kjarasamnings.“ verði sett inn í 18. gr. nýrra laga.

Virðingarfyllst
f.h. Alþýðusambands Íslands
Eyrún Björk Valsdóttir