Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um Menntamálastofnun

Reykjavík, 18. febrúar 2015
Tilvísun: 201501-0019

Efni: Frumvarp til laga um Menntamálastofnun, 456. mál

Með frumvarpinu er kveðið á um stjórnsýslustofnun sem sinni ýmsum verkefnum á sviði menntamála á öllum skólastigum. Stofnunin leysir af hólmi Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun, auk verkefna sem ráðherra kann að fela stofnuninni.
Alþýðusamband Íslands telur að sameining Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar og þeirri uppstokkun sem því fylgir feli í sér tækifæri til að styðja við og efla upplýsinga- og gæðastarf og fagmennsku í skólastarfi. Um það eru gefin ákveðin fyrirheit í frumvarpinu og athugasemdum með því.
Þegar drög að frumvarpinu voru upphaflega kynnt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins var á það bent að hlutverk nýrrar stofnunar væri ekki nægilega vel skilgreint og um margt óljóst m.a. í samhengi við hlutverk annarra aðila á sviði menntamála. Einnig var bent á að valdheimildir ráðherra væru of miklar. Að einhverju leyti hefur verið tekið tillit til þessara ábendinga og athugasemda, en þó ekki nema að hluta. Eftir stendur að verkefni stofnunarinnar og umfang eru um margt mjög óljós.

Í ljósi þess sem segir hér að framan vill Alþýðusamband Íslands koma á framfæri eftirfarandi ábendingum og athugasemdum:
Í frumvarpinu er hlutverk Menntamálastofnunar enn nokkuð óljóst hvað varðar m.a. umfang. Nauðsynlegt er að úr þessu verði bætt, bæði til að starfsemin verði hnitmiðuð og skýr og til að hlutverk hennar sé öllum ljóst. Þannig er mikilvægt að uppbygging nýrrar stofnunar og yfirfærsla verkefna til hennar verið ekki til að draga úr eða skaða það starf sem nú er unnið á sviði menntunar og sannað hefur gildi sitt. Hér ber ekki síst að horfa til þess góða starfs sem nú er unnið að á sviði iðn og starfsmenntunar og framhaldsfræðslu. Bent skal á að nýrri stofnun er ætlað hlutverk á öllum skólastigum og einnig á sviði framhaldsfræðslu, ef ráðherra hverju sinni kýs svo, sbr. 10.grein frumvarpsins. Mikilvægt að allar þær breytingar sem kunna að verða á umsýslu ýmissa verkefna verði unnar í góðu samráði og samstarfi við þá aðila sem málið varðar helst. Hér ber sérstaklega að hafa í huga framhaldsfræðsluna sem byggð hefur verið upp í góðu samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, starfsgreinaráðin og önnur verkefni er tengjast eflingu iðn- og starfsmenntunar.

- Það fyrirkomulag sem nú er til staðar varðandi umsýslu með starfsgreinaráðum, námssamninga og sveinsprófa, sem IÐAN og Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins sinna, byggir á öflugu samstarfi aðila vinnumarkaðarins. Tilfærsla framangreindra verkefna til Menntamálastofnunar væri klárlega til þess fallin að skaða framkvæmd og það uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið á undanförnum árum til eflingar iðn- og starfsnáms með auknu samstarfi samtaka launafólks og atvinnurekenda og ríkari ábyrgð á framkvæmdinni.

- Með 10. grein frumvarpsins fær ráðherra heimild til að færa verkefni Fræðslusjóðs og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins til Menntamálastofnunar eða annarrar ríkisstofnunar. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið áréttað að ekki standi til að breyta núverandi framkvæmd. Mikilvægt er að tekin verði af öll tvímæli um að núverandi fyrirkomulag skuli standa í öllum atriðum og engar breytingar verði gerðar nema í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Þannig verði virt sú staðreynd, að uppbygging og þróun framhaldsfræðslunnar hefur öðru fremur, byggt á góðu og farsælu samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem felur í sér mikil verðmæti eins og kemur fram í nýlegri úttekt Capacent á framhaldsfræðslunni og könnun sömu aðila á meðal notenda framhaldsfræðslunnar.

- Fagráð stofnunarinnar, sbr. 3. grein verður að endurspegla alla þá sem beint og óbeint koma að uppbyggingu menntakerfis okkar, hvort sem er innan skólakerfisins, framhaldsfræðslunnar eða atvinnulífsins.

Í ljósi framanritaðs styður Alþýðusamband Íslands að frumvarp það sem hér er til umfjöllunar verði samþykkt, að því gefnu að tekið verði fullt tillit til þeirra ábendinga og athugasemda sem settar hafa verið fram, tekin af öll tvímæli um hvert hlutverk Menntamálastofnunar á að vera og hvaða verkefnum hún á að sinna um leið og viðurkennt verður það góða starf sem unnið er af öðrum aðilum á svið iðn og starfsmenntunar og framhaldsfræðslu.

Virðingarfyllst,
F.h. Alþýðusambands Íslands
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ