Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um mannvirki og frumvarp til laga um brunavarnir.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2010 
Tilvísun: 201010-0021

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um mannvirki, 78. mál og frumvarp til laga um brunavarnir, 79 mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um mannvirki, 78. mál og frumvarp til laga um brunavarnir, 79 mál.

Frumvörp þessi tengjast frumvarpi til skipulagslaga sem samþykkt var á Alþingi 9. september 2010. Í hnotskurn ganga frumvörpin út á að skilið verði á milli stjórnsýslu skipulagsmála og byggingamála. Einnig eru í frumvörpunum margvísleg ákvæði sem ætlað er að gera á stjórnsýslu hvors málaflokks skilvirkari.

ASÍ vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum er varða samstarf við gerð frumvarpsins, sjónarmið varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi við mannvirkjagerð og sjónarmið neytenda.

Samráð

ASÍ gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð við gerð frumvarpanna að ekki skuli hafa verið haft neitt samráð við hagsmunasamtök helstu starfsstétta sem frumvarpið hefur áhrif á. Þá er það einnig gagnrýnivert að aðeins skuli hafa verið leitað til eins aðila vegna neytendasjónarmiða og þá, að því er virðist, aðeins í tengslum við aðgengismál.

Frumvarpið fjallar að stórum hluta um starfsumhverfi jafnt faglærðara sem ófaglærðra í bygginga- og mannvirkjageiranum, m.a. um skilyrði fyrir byggingaleyfum, reglur um úttektir á framkvæmdum svo og verksvið, hæfiskröfur og ábyrgð byggingastjóra og iðnmeistara. Þrátt fyrir þetta var ekki talin ástæða til að leita til stéttarfélaga iðnaðarmanna eða ófaglærðra byggingaverkamanna. ASÍ mælist eindregið til þess að ekki sé ráðist í breytingar á starfsumhverfi launafólks án þess að leitað sé eftir nánu samráði við fagfélög þeirra. Þá óskar sambandið eftir því að þegar kemur að setningu væntanlegra reglugerða á grundvelli frumvarpsins, verði það að lögum, muni verða haft samráð við hlutaðeigandi stéttarfélög, t.d. um setningu reglugerðar um gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara.

Sjónarmið varðandi réttindi launafólks og aðbúnað, hollustuhætti og öryggi við mannvirkjagerð

Á undangengnum árum hafa ítrekað komið upp mál þar sem sýnt hefur verið framá að gróflega hefur verið brotið á réttindum starfsmanna í bygginga- og mannvirkjagerð. Þetta gildir um laun og önnur starfskjör svo og aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Alvarlegustu brotin hafa oftast tengst erlendum starfsmönnum og erlendum þjónustufyrirtækjum sem hingað koma með tímabundna starfsemi. Hér er um að ræða félagsleg undirboð sem ætlað er að skapa samkeppnisforskot við tilboðsgerð og framkvæmdir í bygginga- og mannvirkjagerð.

Til að stemma stigu við þessu telur ASÍ brýnt að meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingaleyfa sé að fyrir liggi trúverðug áætlun um hvernig framkvæmdaraðili ætli að tryggja að réttindi launafólks sem að framkvæmdinni kemur verði virt og að samhliða reglubundnum áfangaúttektum fari fram mat á því hvort þeirri áætlun sé fylgt eftir. Hægt er að kveða á um þá þætti sem varða réttindi launafólks þegar starfsleyfi byggingastjóra er gefið út sbr. 28. gr. og fella m.a. inn í gæðastjórnunarkerfi sbr. sömu grein.

Hvað varðar aðbúnaðar-, hollustuhátta- og öryggismálin sérstaklega er nauðsynlegt að inn í lögin verð felld tilvísun í skyldur byggingastjóra og eigenda skv. lögun nr. 46/1980 og reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996.

Af einstökum atriðum í lagafrumvarpinu um mannvirki vill ASÍ benda á eftirfarandi:

·Í lokamálsgrein 34 gr. er opnað fyrir þann möguleika að byggingastjóri annist sjálfur einstakar áfangaúttektir. ASÍ leggur til að það verði tryggt í lögunum að ef byggingastjóri annist sjálfur slíka úttekt þá sé honum skylt að kalla til viðkomandi iðnmeistara ella beri hann sjálfur alla ábyrgð á þeim verkþáttum sem teknir eru út.

Sjónarmið neytenda

Síðustu ár hafa ítrekað komið upp mál er varða vanefndir í tengslum við bygginga- og mannvirkjaframkvæmdir. Það ber því að fagna að í frumvarpinu er með ýmsum hætti tekið á þessu vandamáli, t.d. með því að skýra betur kröfur um hæfi, verksvið og ábyrgð þeirra aðila sem að bygginga- og mannvirkjaframkvæmdum koma.

Af einstökum atriðum í lagafrumvarpinu um mannvirki vill ASÍ benda á eftirfarandi:

·Í 7. gr. er sveitastjórnum gefin heimild til að ákveða hvort þau starfræki bygginganefnd eða ekki. Þetta þýðir væntanlega að þar sem ekki eru starfræktar slíkar nefndir er ekki lengur hægt að kæra ákvarðanir byggingafulltrúa til bygginganefndar heldur verði að skjóta málinu beint til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála sem þá mun þurfa að sinna mun fleiri málum en áður. ASÍ leggur áherslu á að fyrirbyggt verði að afnám bygginganefndanna grafi undan réttarstöðu almennings í skipulagsmálum.

·Í næstneðstu málsgrein 28. gr. er opnað fyrir þann möguleika að fyrirtæki og stofnanir beri í eigin nafni ábyrgð sem byggingastjórar. ASÍ telur að ef opna á fyrir þennan möguleika verði að búa svo um hnútana að tryggingar viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar haldi gildi sínu jafnvel þó viðkomandi fyrirtæki verði gjaldþrota og hætti starfsemi. Almennt þarf neytandi að geta treyst því að tryggingar ábyrgðaraðila falli ekki úr gildi jafnvel þó ábyrgðaraðili greiði ekki iðgjald af tryggingu sinni eða verði gjaldþrota og hætti starfsemi.

·Í neðstu málsgrein 29. gr. er sett fram sú krafa að byggingastjóri skuli hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi a.m.k. fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði. Áhöld geta verið um það hvenær framkvæmdum sem byggingastjóri stýrir líkur. Það getur aftur leitt til þess, í vissum tilvikum, að ágreiningur, sem hefði mátt koma í veg fyrir, með skýrari reglum,komi upp, um það hver beri ábyrgð á tjóni. ASÍ telur að taka þurfi af allan vafa um það í lögunum hvenær framkvæmd telst lokið í þessum skilningi.

·Í þriðja tölulið í gr. 39 segir m.a. að ef til séu samhæfðir evrópskir staðlar eða evrópskt tæknisamþykki fyrir viðkomandi byggingavöru skuli hún merkt með CE-merki. Í þessu samhengi vill ASÍ benda á að hugsanlegt er að í einhverjum tilvikum eigi þessir staðlar/tæknisamþykki ekki við um íslenskar aðstæður. Það virðist t.d. vera sem hér á landi sé gjarnan notast við heitara vatn í ýmsum lagnakerfum en tíðkast annars staðar í Evrópu og því hugsanlegt CE-merking á lagnaefni tryggi ekki örugga notkun þess hér.

Virðingarfyllst,
Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ