Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Alþýðusambandinu hefur borist ofangreind mál til umsagnar. Fyrir utan 2. gr. frumvarpsins snýst þetta mál um að koma á og viðhalda samnorrænu sérréttindakerfi ríkisstarfsmanna. Annars vegar á að heimila þeim einstaklingum, sem verið hafa starfsmenn ríkisins og fara til starfa á vegum alþjóðastofnana, heimild til þess að greiða áfram til B-deildar með ábyrgð ríkisins á réttindum. Væntanlega verður sambærileg regla látin gilda varðandi réttindi alþingismanna og ráðherra, sem nú hvíla beint á ríkissjóði eftir að lífeyrissjóðir þeirra voru lagðir niður. Samkvæmt þessu frumvarpi stendur t.d. ekki til að veita einstaklingum, sem koma úr öðrum störfum og fara til vinnu í alþjóðastofnunum sem við eigum aðild að, sambærileg réttindi.

 Hins vegar er verð að setja í lög ákvæði samkomulags, sem ríkisstjórnin undirritaði árið 2001 (og ekki er ljóst hvort þegar er farið að framkvæma þær skuldbindingar sem leiða af samkomulaginu) þar sem mynduð er sérstök norræn samtrygging um þau sérréttindi sem ríkisstarfsmenn þessara landa njóta umfram aðra landsmenn. Eins og alþingismönnum er kunnugt um, eru núverandi sérréttindi ríkisstarfsmanna (þ.m.t. alþingismanna og ráðherra) ættuð frá þessum embættismannaréttindum sem mótuð voru í upphafi síðustu aldar. 

Af skiljanlegum ástæðum mótmælir ASÍ þessu frumvarpi, að 2. gr. frátalinni, og leggst gegn samþykkt þess.

 

Með kveðju,

 Gylfi Arnbjörnsson,

framkvæmdastjóri ASÍ