Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning

Reykjavík, 27.6 2013

       Tilvísun: 201306-0030

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, 7. mál

Með frumvarpinu er lagt til að sameina í ein lög rétt til bóta og aðstoðar vegna elli, skertrar starfsgetu, andláts eða framfærslu barna með það að markmiði að gera lögin einfaldari og skýrari en núgildandi löggjöf. Þetta eykur gagnsæi og gefur betri yfirsýn yfir réttindi einstakra hópa sem er vel. Frumvarpið byggir á tillögum verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá árinu 2009 og tillögum starfshóps um endurskoðun almannatrygginga að því er varðar greiðslur til aldraðra.

Alþýðusambandið fagnar frumvarpinu og leggur áherslu á að þær grundvallarbreytingar sem það felur í sér nái fram að ganga. Að baki frumvarpinu liggur þverpólitísk vinna sem rík sátt hefur náðst um og mikilvægt er að áfram verði byggt á. Áhersla er á nauðsyn þess að einfalda kerfið frá því sem nú er og auka gagnsæi auk þess sem brýnt er að samspil almannatrygginga, lífeyrissjóðstekna og annarra tekna sé réttlátt og skilvirkt.

Ljóst er að miklar deilur hafa verið hér á landi undanfarin ár vegna ýmsa þátta almannatrygginga ekki síst frystingar bóta og aukinna  tekjutenginga. Þá hefur Alþýðusambandsins átt í deilum við ríkisstjórnina vegna efnda á yfirlýsingum ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga í maí 2011. Sú niðurstaða sem náðst hefur í verkefnisstjórninni og starfshópnum endurspeglar mikilvæga málamiðlun milli aðila sem er liður í því að ná breiðari sátt um almannatryggingakerfið.

Við mat á áhrifum tillagna starfshópsins stendur ríkissjóður frammi fyrir tvíþættum útgjaldaáhrifum. Annars vegar er ljóst að núverandi umfang útgjalda vegna ellilífeyris er lægra en ella vegna þeirra aðhaldsaðgerða sem gripið var til vegna efnahagskreppunnar og valdið hafa talsverðum deilum. Alþýðusambandið telur óhjákvæmilegt annað en að komið verði til  móts við þá gagnrýni með hækkun bótaréttar, en hefur fallist á þá áherslu stjórnvalda að það gerist í áföngum á næstu árum. Hins vegar hafði starfshópurinn frumkvæði að því að leggja tryggingafræðilegt mat á þróun útgjalda ríkisins vegna ellilífeyris næstu áratugina, m.a. í ljósi fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Þetta hefur ekki áður verið gert hér á landi hvað varðar almannatryggingar, en er gert árlega af hálfu lífeyrissjóðanna. Samkvæmt þessu mati munu útgjöld ríkisins aukast mikið á komandi áratugum vegna mikillar fjölgunar aldraðra. Á móti er jafnframt ljóst að réttur hvers einstaklings til bóta almannatrygginga mun, þrátt fyrir tillögur starfshópsins, fara lækkandi á komandi árum og áratugum vegna þess að réttur þeirra til lífeyris frá lífeyrissjóðunum mun vaxa mjög hratt fram undir miðja þessa öld. Að mati Alþýðusambandsins skapar þessi staðreynd Íslendingum afar mikilvægt samkeppnisforskot gagnvart umheiminum. Þrátt fyrir að útgjöld ríkisins fari vaxandi er ljóst að skatttekjur ríkissjóðs af lífeyristekjum almennings úr lífeyrissjóðunum (og er þá horft framhjá tekjum ríkissjóðs vegna sjálfra bóta almannatrygginga) munu fara hratt vaxandi samhliða útgjaldaaukningunni. Ef tekið er tillit til þessa munu nettó útgjöld ríkisins vegna ellilífeyris fara lækkandi ár frá ári og verða ,,neikvæð‘‘ um miðjan fjórða áratug þessarar aldar.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru liður í heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni sem enn er ekki lokið. Alþýðusambandið leggur á það ríka áherslu að starfshópur um endurskoðun almannatrygginga vinni áfram að tillögum á breytingum á þeim köflum laganna sem eftir standa og fjalla um bótakerfi vegna örorku, starfsgetumat, bætur til foreldra langveikra- og fatlaðra barna, barnatryggingar og bifreiðamál hreyfihamlaðra. Þá verði lokið við heildarendurskoðun laganna svo fljótt sem tillögur starfshópsins í ofangreindum þáttum liggja fyrir.

 

Athugasemdir við einstaka þætti:

22. gr. – Gert er ráð fyrir að fallið veri frá hækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar örorkulífeyrisþega úr 45% í 38,35%. Með þeim umfangsmiklu breytingum sem starfshópurinn sameinaðist um varðandi kjör ellilífeyrisþega varð samstaða um nýja hugsun í kerfinu. Í ljósi þess að enginn umræða hefur farið fram um örorkulífeyri telur Alþýðusambandið rétt að fresta öllum breytingum er varða örorkulífeyrisþátt laganna þar til starfshópur um endurskoðun almannatrygginga hefur lagt fram tillögur sínar.

60. gr. – Í tillögum starfshópsins um sameiningu bótaflokka fyrir aldraða er lög áhersla á að horfa þurfti til samspils grunnfjárhæða og uppbótar vegna framfærslu. Lækkun á tekjutengingu framfærsluuppbótarinnar verður að skoða í beinu samhengi við bæði upphæð grunnbóta og endanlega tekjutengingu þegar aðlögunartímabili lýkur. Ljóst er að umrædd niðurstaða og samstaða hefði ekki náðst ef legið hefði fyrir að breytingin hefði þessi áhrif gagnvart öryrkjum án þess að tengja það heildarendurskoðun á örorkulífeyrisþættinum. Í framsetningu frumvarpsins, þar sem ekki er gerður greinarmunur á því hvort um örorku- eða ellilífeyrisþega er að ræða í tengslum við uppbót vegna framfærslu hefur þessi samstilling á bótarétti aldraðra ófyrirséð áhrif á bótarétt öryrkja án þess að það hafi nokkurn tíma verið rætt eða metið. Því telur ASÍ rétt að þessi breyting á tekjutengingu framfærsluuppbótar verði afmörkuð við eldri borgara þar til starfshópurinn hefur lokið endurskoðun almannatrygginga vegna örorkulífeyris.

11 gr. - Í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins segir að lagt sé til að séreignarsparnaður hafi ekki áhrif á útreikning ellilífeyris að sinni en stefnt verði að því að sá sparnaður verði gerður jafnsettur öðrum sparnaði, þannig að greint verði á milli höfuðstóls og ávöxtunar. Tillögur starfshópsins miða við óbreytt kerfi til að byrja með, en að endurskoðun þessa þáttar verði lokið eigi síðar en þegar breytingin er að fullu gengin í gegn árið 2017. ASÍ áréttar að í því samhengi er nauðsynlegt að skoða ýmis álitamál er varða séreignarlífeyrinn og skilgreina hvað teljist í reynd þar til. Mikilvægt er að kerfið stuðli að frjálsum lífeyrissparnaði og breytingin í heild styðji við markmið lífeyriskerfisins.

Alþýðusambandið styður frumvarpið og mælir með samþykkt þess að teknu tilliti til framangreindra athugasemda.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz,
hagfræðingur