Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Reykjavík, 22.04.2014
Tilvísun: 201404-0017

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, 485 mál

Almennt um skuldalækkun
Mál þetta verður að skoða í samhengi við mál nr. 484, frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. ASÍ telur mikilvægt að þegar jafn stór mál og þessi eru til umfjöllunar á Alþingi að vandað sé til verka og að fyrir liggi ítarleg greining á umfangi og áhrifum aðgerðanna auk tillagna um nauðsynlegar aðgerðir samhliða skuldalækkuninni, sem nái m.a. til eftirfarandi þátta:

 Greining á efnahagslegum áhrifum aðgerðanna
 Tillögur að nauðsynlegum mótvægisaðgerðum stjórnvalda til að lágmarka neikvæð efnahagsleg áhrif aðgerðanna s.s. á verðlag, gengi, vexti og fjárfestingar
 Greining á áhrifum aðgerðanna á tekjur ríkis og sveitarfélaga í framtíðinni í ljósi fjölgunar eldri borgara og aukinna útgjalda vegna þjónustu við aldraða
 Greining á áhrifum aðgerðanna á mismunandi tekjuhópa
 Greining á áhrifum aðgerðanna á lífeyriskerfið til framtíðar

Um mál nr.485
Samkvæmt frumvarpinu á að verja 80 milljörðum af almannafé til að lækka verðtryggðar skuldir heimilanna vegna íbúðakaupa á fjögurra ára tímabili. Áhrif aðgerðanna verða því mikil bæði á hagkerfið og á tekjuskiptingu í samfélaginu.

1. Efnahagsleg áhrif aðgerðanna
Í úttekt Seðlabanka Íslands um efnahagsleg áhrif aðgerða stjórnvalda til lækkunar húsnæðisskulda heimila sem birt er Peningamálum 2014-1, kemur fram að áhrifin verða eftirfarandi; einkaneysla eykst, fjármunamyndun verður minni en ella fram til ársins 2017, þjóðarútgjöld vaxa, viðskiptajöfnuður verður óhagstæðari, hagvöxtur eykst, framleiðsluspenna verður meiri, gengi krónunnar veikist, verðbólga eykst og stýrivextir verða hærri. Hagdeild ASÍ komst að svipuðum niðurstöðum í þjóðhagsspá sinni í mars sl. Því er mikilvægt áður en ráðist er í aðgerðirnar að fyrir liggi áætlun ríkisstjórnarinnar um það hvernig brugðist verði við neikvæðum afleiðingum aðgerðanna s.s. veikingu krónunnar, aukinni verðbólgu og hækkun vaxta. Mikilvægt er að tillögur að nauðsynlegum mótvægisaðgerðum stjórnvalda til að lágmarka neikvæð efnahagsleg áhrif aðgerðanna s.s. á verðlag, gengi, vexti og fjárfestingar liggi fyrir áður en ráðist er í aðgerðirnar.

2. Áhrif á jöfnuð
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að: „Meðalfjárhæð á hvert heimili hækkar eftir því sem tekjur eru hærri þar sem tekjuhærri heimili er að jafnaði skuldugri en þau tekjulægri.“ Þá er ljóst að aðgerðinni er ætlað að ná til hópa sem eru með verðtryggð íbúðalán og ekki hafa fengið lækkun á íbúðalánum sínum í fyrri aðgerðum sem fyrst og fremst var beint til þeirra sem voru í greiðslu og/eða skuldavanda. Það má því ætla að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum muni ríkissjóður verja umtalsverðum fjárhæðum til að greiða niður skuldir tekjuhárra hópa sem hvorki eru í skulda- né greiðsluvanda. ASÍ telur þetta ekki rétta ráðstöfun skattfés og leggur til að sett verði eigna- og tekjumörk varðandi það hverjir fái niðurgreiðslur á íbúðalánum sínum úr ríkissjóði.
Þá vekur ASÍ athygli á að í 3. gr. frumvarpsins segir: „Leiðrétting tekur ekki til lögaðila, þrátt fyrir að til láns hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, þ.m.t. samkvæmt lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög.“ Það er með öllu ótækt að undanskilja húsnæðissamvinnufélög og sjálfseignarstofnanir fyrir aldraða og öryrkja skuldaniðurfærslunni þar sem hækkun húsnæðislána í kjölfar hrunsins lenti með fullum þunga á þessum rekstrarformum og hafa þeir sem völdu sér þessi búsetuform orðið að standa undir hækkun þeirra lána sem á húsnæðinu hvílir. ASÍ leggur því til að ákvæðið um að undanskilja húsnæðissamvinnufélög og sjálfseignarstofnanir fyrir aldraða og öryrkja verði fellt brott.
Þá er rétt að benda á að frumvarpið kemur ekki á neinn hátt til móts við tekjulágt fólk á leigumarkaði. ASÍ leggur til að það fjármagn sem má spara með því að setja tekju- og eignamörk á aðgerðina verð nýtt til að fjármagna nýtt félagslegt íbúðakerfi.

3. Nýta heimildir Hagstofu Íslands til að undirbyggja betur aðgerðirnar
Með breytingum á lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð á síðasta ári var stjórnvöldum heimilt „... að greina skulda-, greiðslu- og eiginfjárstöðu heimila og lögaðila með það að markmiði að stuðla að því að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum grunni. Í því skyni er Hagstofu Íslands veitt heimild til að afla upplýsinga og vinna úr þeim samkvæmt ákvæði þessu í þeim tilgangi að vinna tölfræðiskýrslur sem nýtast til að fylgjast með framgangi og meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra á hag heimila og lögaðila.“ Mikilvægt er að nýta þessar víðtæku heimildir til að greina áhrif fyrirhugaðra aðgerða áður en þær koma til framkvæmda til að tryggja sem best meðferð almannafjár.

F.h. Alþýðusambands Íslands,
Ólafur Darri Andrason,
hagfræðingur ASÍ