Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um lax- og silungsveiði (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags)

Reykjavík: 2.3.2015
Tilvísun: 201502-0025


Efni: Frumvarp til laga um lax- og silungsveiði (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags), 514. mál

Frumvarpinu er ætlað að skýra hlutverk veiðifélaga og tiltekna ráðstöfun eigna utan veiðitíma.

Varðandi fyrri hluta þeirrar málsgreinar sem lagt er til að bætist við 1.mgr. 37.gr. þar sem segir „að nýta eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn“ leggur ASÍ til að aftan við bætist „í þágu sameiginlegra réttinda þeirra skv. lögum þessum“. Með þeim hætti fæst ekki misskilist að ekki sé verið að opna fyrir heimildir til hvaða ráðstöfunar sem er og sem arðsöm kann að vera enda um sérstakt skylduaðildarfélag að ræða sem vegna þeirrar stöðu sinnar getur ekki og á ekki að takast á við önnur verkefni en þau sem skylduaðildina réttlæta.

Vakin er athygli á því, að fjallað er um sjálfstæðar eignir veiðifélaga í 6.mgr. 37.gr. Betur færi á því að síðari hluti þeirrar málsgreinar sem lagt er til að bætt verði við 1.mgr. 37.gr. þar sem segir „Heimilt er veiðifélagi að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi“ yrði fluttur þangað enda vart sjálfstætt hlutverk veiðifélaga að ráðstafa eigum utan veiðitíma þó opna þurfi heimild til slíks vegna óskýrleika gildandi laga.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ