Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 142. mál.

ASÍ fagnar nýju frumvarpi sem hefur að markmiði að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. ASÍ telur að í reynd hljóti það öðru fremur að vera aðilar vinnumarkaðarins sem beri ábyrgð á því að markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á vinnumarkaðinum verði framfylgt.

ASÍ lýsir yfir almennri ánægju með frumvarpið og telur að tillit hafi verið tekið til athugasemda ASÍ, samanber bréf dagsett 21.09.06 til nefndar um endurskoðun jafnréttislaga þar sem fram koma tillögur er varðar samræmi á milli þeirra efnislegu réttinda sem jafnréttislög mæla fyrir um og þeim úrræðum sem launafólki og öðrum standa til boða til að knýja á um að þessi réttindi séu í raun virt.

Alþýðusambandið telur mikilvægt að kærunefnd jafnréttismála hafi völd til að rannsaka og upplýsa mál og að niðurstöður hennar verði settar fram í formi úrskurða eins og lagt er til í frumvarpinu.

Launajafnrétti og kynbundinn launamunur hefur verið mjög til umræðu í samfélaginu á undanförnum misserum og allar kannanir benda til þess að kynbundinn launamunur sé til staðar á íslenskum vinnumarkaði.  Jafnréttislög byggja á þeirri forsendu að starfsmenn eigi að geta staðreynt hvort þeim sé mismunað í launum og það verður ekki gert nema þeir geti óhindrað fjalla um launakjör sín með samtölum við vinnufélaga og aðra ef þeir svo kjósa. Alþýðusamband Íslands fagnar því ákvæði í frumvarpinu þar sem lagt er til að starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

ASÍ telur mikilvægt að gott samstarf sé á milli Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs og fagnar breytingum þar að lútandi sem fram kemur í frumvarpinu.

Varðandi þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera þá er það stefna Alþýðusambands Íslands að fulltrúar sambandsins skulu tilnefndir án skilyrða eða afskipta veitingarvaldsins.

Í ljósi framanritaðs styður Alþýðusamband Íslands frumvarpið um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Mikilvægt er að í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla séu skýr ákvæði sem nýtist aðilum vinnumarkaðarins í því verkefni að fylgja eftir markmiðum þeirra.


Virðingarfyllst
f.h. Alþýðusambands Íslands

Maríanna Traustadóttir
Jafnréttisfulltrúi