Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um jafna stöðu kvenna og karla

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 9. mál, upplýsingaskylda, málshöfðunarréttur.

Vísað er til umsagnar Alþýðusambands Íslands dags. 10.01.2006 þar sem fjallað er um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2006, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 45. mál.

Þar kemur fram: ”Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að vinna gegn kynbundnum launamun og öðrum misrétti kynjanna. Fram hefur komið að lagasetningar hafa ekki dugað til og sértækar aðgerðir hafa heldur ekki skilað viðunandi árangri. Áherslur í jafnrétti kvenna og karla hafa því í auknum mæli beinst að kerfislægri mismunum kynjanna og mikilvægt er að góð stjórnvaldstæki séu til staðar til að vinna á stöðumun kynjanna á vinnumarkaði.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að bætist við ný grein er verður 4. gr. laganna og fjallar um Upplýsingaskyldu. Þar er mælt fyrir um víðtækari heimildir fyrir Jafnréttisstofu en núgildandi 4. mgr. 3. gr. hefur veitt henni að krefja opinberar stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna Jafnréttisstofu og athugunar á einstökum málum.

Alþýðusamband Íslands telur aðgengi upplýsinga mikilvægt er varðar verkefni og athuganir á einstökum málum hvort sem Jafnréttisstofa eða kærunefnd jafnréttismála á í hlut og sér ekki mun hvort sá réttur sé færður Jafnréttisstofu eða kærunefnd jafnréttismála.

Í ljósi framanritaðs styður Alþýðusamband Ísland þá meginhugsun sem fram kemur í 2. gr. frumvarpsins.”

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að við 11. gr. núverandi laga bætist við ný málsgrein og fjallar um kosningu jafnréttisfulltrúa í sérhverju fyrirtæki og stofnun, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, til eftirlits með jafnréttisáætlun. Einnig er kveðið á um vegna mikilvægis starfa jafnréttisfulltrúa að rétt þyki að tryggja starfsöryggi þeirra og stöðu að öðru leyti með því að veita þeim sambærilega stöðu og trúnaðarmönnum er veitt  með lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og ákvæðum kjarasamninga.

Vísað er í umsögn Alþýðusambandsins frá 10.01.2006.

”Hvað varðar jafnréttisfulltrúa í fyrirtækjum og stofnunum þar sem eru fleiri en 25 starfsmenn og jafnréttisfulltrúanum veitt sambærileg staða og trúnaðarmönnum er veitt með lögun nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur og ákvæðum kjarasamninga, hefur ekki verið mótuð afstaða að hálfu Alþýðusambands Íslands.”

Í 7. gr. laganna er lögð til breyting á 20. gr. gildandi laga er varðar þátttöku í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Lagt er til að sami háttur verði á við skipun og tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga, þar sem tilnefningaraðilar tilnefna einn karl og eina konu í þær. Stefna Alþýðusambands Íslands við tilnefningu fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga er að fulltrúar skulu tilnefndir án skilyrða eða afskipta veitingarvaldsins.

Alþýðusamband Íslands sendi nefnd, skipuð af félagsmálaráðherra, sem er að endurskoða efni laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla athugasemdir sínar varðandi jafnréttismál og tillögur til breytinga á umræddum lögum. Athugasemdir ASÍ frá 21. september 2006 sendast hér með sem viðhengi.

 

Virðingarfyllst

f.h. Alþýðusambands Íslands

 

 

Maríanna Traustadóttir

Jafnréttisfulltrúi