Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Reykjavík: 5.4 2018
Tilvísun: 201803-0043 og 44


Efni: Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, 394. mál og frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, 393. mál

Sameiginleg umsögn er veitt um mál nr. 394 og 393 sem byggja á tilskipunum ESB 2000/43 og 2000/78 enda hefur frá upphafi verið sameiginlega unnið að innleiðingu meginefnis þeirra í íslenskan rétt. Umsögnin er samhljóða þeirri sem áður var gefin þá er mál þessi voru fyrir Alþingi. Það er einlæg von Alþýðusambands Íslands að Alþingi auðnist að klára afgreiðslu þessara tveggja mála nú á vorþingi.

Íslensk stjórnskipan byggir á því að „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Þessum frumvörpum er ætlað styrkja raunverulega og góða framkvæmd þessarar stjórnarskrárbundnu meginreglu og Alþýðusamband Íslands fagnar því framlagningu þeirra og hvetur til þess að þau verði samþykkt.

Eins og fram kemur í greinargerð eru þær tilskipanir sem frumvörpin byggja á, ekki hluti þeirra gerða sem innleiða ber skv. EES-samningnum. Noregur lagði hins vegar til á sínum tíma, að þær yrðu viðurkenndar sem hluti af EES samningnum en hin lagatæknilega niðurstaða EFTA-EES ríkjanna varð hins vegar sú að ekki væri skylt að innleiða þær sem hluta EES samningsins.

Þegar á árinu 2003, eða áður en til aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu kom, samþykkti ríkisstjórn Íslands að gæta skyldi efnislegs samræmis í íslenskum rétti og þeim rétti er gilti innan Evrópusambandsins á grundvelli framangreindra tilskipana, enda þótt efni gerðanna ætti ekki formlega undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Alþýðusamband Íslands tók þegar í upphafi þá afstöðu, bæði innan samráðsnefndar um EES og opinberlega, að jafnvel þó sannfærandi lögfræðileg sjónarmið leiddu til þess að ekki þyrfti að gildistaka tilskipanir þessar, þá ætti engu að síður að gera með sérstakri lagasetningu.
Rök sambandsins voru aðallega eftirfarandi:

- Öll lönd á EES svæðinu sem við berum okkur saman við hafa sett eða hyggjast setja löggjöf um þetta efni, byggt á tilskipunum ESB.
- Noregur ætlar að uppfylla öll skilyrði þeirra og ríki Evrópusambandsins eru skuldbundin til að gera það og eru sett undir agavald ESB í þeim efnum.
- Tilskipanirnar eru í reynd hluti af reglum á vinnumarkaði Evrópu. Löggjöf hér á landi sem byggði á þeim og með tilvísun til þeirra ætti að tryggja samleitni á vinnumarkaði alls evrópska efnahagssvæðisins.
- Mikilvægt væri fyrir rekstur og þróun EES samningsins og stöðu Íslands í Evrópusamvinnunni að tilskipanirnar verði hluti af réttindakerfi á íslenskum vinnumarkaði.

Í águst 2004 lagði ASÍ til að lög yrðu sett sem tryggðu nauðsynlegar heimildir til að fylgja markmiðum tilskipananna. Kveðið yrði á um málsmeðferð og sönnun þegar einstaklingar telja að á þeim hafi verið brotið og úrræði sköpuð til að koma í veg fyrir að einstaklingar missi starf sitt eða sé með öðrum hætti refsað fyrir að nýta sér rétt sinn. Kveðið yrði á um söfnun og úrvinnslu upplýsinga er varða markmið og framkvæmd laganna, sett á laggirnar samráð stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka hlutaðeigandi hópa varðandi markmið og framkvæmd laganna og að lokum að bætur og viðurlög skv. þeim væru fullnægjandi.

Þessi stefna var ítrekuð og henni fylgt eftir í þeim starfshópi sem Árni Magnússon, þáverandi félagsmálaráðherra ýtti úr vör síðla árs 2005 (ranglega sagt 2006 í greinargerð) og sem Helgi Hjörvar þáverandi alþingismaður stýrði til lands í lok árs 2008. ASÍ taldi niðurstöður þess starfshóps viðunandi í ljósi þeirra markmiða sem ASÍ lagði upp með og lýsti sérstakri ánægju með þá sátt sem að lokum tókst um niðurstöður.

Síðan þá hefur verið lögð mikil vinna í samningu þeirra frumvarpa sem nú hafa verið lögð fram öðru sinni. Sú vinna hefur alltaf byggt á góðu og nánu samráði og samstarfi stjórnvalda þ.m.t. allra stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðar og fjölda annarra samtaka. Þegar í árslok 2012 lá fyrir í megindráttum frumvarp til innleiðingar beggja tilskipana hvað vinnumarkaðinn varðar og haustið 2013 lágu bæði frumvörpin fyrir, nánast í sinni endanlegu gerð. Allar breytingar sem á þeim drögum hafa verið gerðar, hafa verið gerðar í víðtæku samráði.

Eins og fyrr segir, byggja bæði frumvörpin á víðtækri samvinnu og samráði. Alþýðusamband Íslands gerir því engar efnislega athugasemdir við einstakar greinar þeirra og hvetur til þess að þau verði samþykkt óbreytt.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ