Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu

ASÍ fagnar því að settur sé lagarammi um starfsemi og réttarstöðu íslensku friðargæslunnar og starfsmenn hennar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því, að friðargæslan hafi á að skipa breiðum hóp einstaklinga sem fær séu um að taka að sér þau verkefni sem m.a. eru skilgreind í 2.mgr. 1.gr. frumvarpsins. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að lögin geri ráð fyrir því að fleiri en starfsmenn ríkisins geti horfið frá störfum sínum tímabundið til þess að takast á hendur verkefni á vegum friðargæslunnar. Frumvarpið í núverandi mynd er alfarið sniðið að umhverfi ríkisstarfsmanna. Gera má minniháttar breytingar sem auðveldað geta einstaklingum í borgaralegum störfum á almennum vinnumarkaði aðgang að þessum mikilvægu störfum. Annars vegar þannig að starfsmönnum verði gert mögulegt að halda aðild að viðeigandi lífeyrissjóðum og stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði. Með þeirri aðild vinnast og viðhaldast réttindi sem mynda æ stærri þátt af réttindum viðkomandi einstaklinga. Hins vegar má gera það með samvinnusamningum friðargæslunnar og einstakra fyrirtækja eða félagasamtaka en fyrir slíka samninga gæti frumvarpið opnað heimildir. Að lokum er athygli nefndarinnar vakin á því, að samhliða því að taka úr sambandi 1.mgr. 44.gr. l. 70/1996 er nauðsynlegt að gera ákvæði 5. og 6. gr. laga 139/2003 óvirk gagnvart þessum hópi starfsmanna.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,

 Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ.