Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Reykjavík 7. desember 2010

Tilvísun: 201011-0058

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, 237. mál.

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þskj. 268, 237. mál.

Alþýðusambandið fagnar framlagningu frumvarps til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Frá hruni þriggja stærstu bankanna hausti 2008, hefur ekkert virkt innstæðutryggingakerfi verið hér á landi. Alþýðusambandið telur að verði frumvarpið að lögum sé stigið stórt skref í að endurheimta trúverðugleika íslensks fjármálakerfis og þar með sé stuðlað að hraðari endurreisn efnahags- og atvinnulífs landsins.

Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að veita innistæðueigendum í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækja upp að vissu marki. Í frumvarpinu er ekki kveðið lengur á um lágmarkstryggingu eins og í núgildandi lögum um innstæðutryggingar, en í staðinn er kveðið á um hámarkstryggingar 100.000 evra sem jafngildir nú 15,1 milljón ISK. Hámarkstryggingin miðast við heildarfjárhæð tryggðra innstæðna hvers eiganda við heildarfjárhæð hans á innlánsreikningum í viðkomandi innlánsstofnun, þar með talið séreignarlífeyrissparnaður. Hér er kveðið skýrar á um að innlánstryggingu séreignarlífeyrissparnaðar sem er að hluta eða öllu leyti geymdur á innlánsreikningum, en gert er í núgildandi lögum.

Alþýðusambandið hefur engar athugasemdir við frumvarpið, að kom komnu máli og leggur til að það verði samþykkt.

Virðingarfyllst,

Ingunn S. Þorsteinsdóttir

Hagfræðingur hjá ASÍ